135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[15:56]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisvert svar hjá hv. þingmanni. Það er greinilegt að hv. þingmaður er á harðahlaupum undan þeim rangfærslum sem hún hafði í frammi í ræðustól áðan. Þingmaðurinn sagði að með frumvarpinu væri verið að færa greiðslur til einkaaðila og koma á sjúklingasköttum, hún staðhæfði það æ ofan í æ. Hv. þingmaður er nú á harðahlaupum frá þeim málflutningi.

Það er líka ljóst að hv. þingmaður kýs að ræða ekki frekar þær ábendingar mínar að í frumvarpinu er beinlínis girt fyrir ýmis vandkvæði sem komið hafa upp í samningum við einkaaðila hingað til. Í reynd er því verið að skapa heilbrigðari og traustari grundvöll undir samninga, jafnt við opinbera aðila sem einkaaðila, um veitingu heilbrigðisþjónustu og tryggja faglegra eftirlit með slíkum samningum og faglegri umgjörð um framkvæmd þjónustunnar en verið hefur hingað til.

Það er satt að segja, eins og ég nefndi hér áðan, ekki boðlegt að sitja æ ofan í æ undir rangtúlkunum, undir röngum áburði. Hv. þingmenn hafa ekki einu sinni tilburði í frammi til að reyna að rökstyðja mál sitt þegar gengið er á þá og óskað eftir rökstuðningi. Hér er geipað um einkavæðingu daginn út og daginn inn en þegar bent er á hversu holur hljómur er í þessum innantóma málflutningi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, afturhaldssamasta vinstri flokks í Evrópu, kemur í ljós að það er ekkert sem hönd á festir. Þingmaðurinn flögrar satt best að segja hér um eins og fiðrildi á haustdegi og reynir að komast undan því að svara spurningum sem til hennar er beint. Hvar er verið að koma sjúklingasköttum á fólk í frumvarpinu, hv. þingmaður? Hvar er verið að koma á frekari einkavæðingu sem felst í því að verið sé að auka greiðslubyrði almennings af heilbrigðisþjónustu? Hvar er verið að gera það?