135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:01]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks vill að heilbrigðisþjónusta á Íslandi verði ávallt í fremstu röð. Rúmlega fjórðungi fjárlaga ríkisins er varið til heilbrigðismála og nýting fjármuna, skipulag og rekstur heilbrigðiskerfisins er því mál sem varðar alla.

Heilbrigðisþjónustan á Íslandi er á margan hátt til fyrirmyndar en í mannauði heilbrigðisgeirans felst mikil og dýrmæt auðlind. Það er gott aðgengi hér fyrir alla þá sem eru bráðveikir eða slasaðir og árangur á mörgum sviðum er eftirtektarverður og með því besta sem þekkist í heiminum, svo sem lágur ungbarnadauði, hátt hlutfall í lifun eftir stór áföll, árangursrík glasafrjóvgun og framúrskarandi meðferð kransæðasjúklinga og í krabbameinslækningum.

Þrátt fyrir öflugt og hæfileikaríkt starfsfólk heilbrigðiskerfisins eru hins vegar ýmsar brotalamir á kerfinu. Verulega hefur skort á heildrænt skipulag þessa umfangsmikla málaflokks. Það þarf því að mínu mati að ráðast í kerfislægar endurbætur og forðast ómarkvissar og illa ígrundaðar niðurskurðartillögur.

Fyrir nokkrum árum lýsti Samfylkingin sig reiðubúna til að taka þátt í að endurbæta heilbrigðiskerfið með opnum huga með það að leiðarljósi að kerfið yrði gert markvissara og skilvirkara fyrir notendur. Stöðugt yrði að leita bestu aðferða til að ná fram betri árangri og forsenda endurbóta í heilbrigðiskerfinu væri að markmið jafnaðarstefnunnar stæði óhaggað. Þannig yrði mannúð, jafnræði og árangur og skilvirkni best tryggð.

Þess vegna, frú forseti, verða menn að vera óragir við nýjungar en taka um leið fulla ábyrgð á þeim og hætta við þær ef árangur er ekki viðunandi eða í samræmi við markmið en festa þær í sessi ef vel tekst til. Og þegar kemur að breytingum í heilbrigðiskerfinu þarf að sjálfsögðu ætíð að hafa öryggi sjúklinga í öndvegi.

Eins mikilvægt og það er að hvetja til góðrar nýtingar fjármuna á þessu sviði er jafnmikilvægt að ýta undir framfarir og fjárfestingar þannig að nauðsynlegar breytingar, umbætur og ný form í rekstri og framkvæmd eigi sér stað í samstarfi og jákvæðu andrúmslofti.

Jafnaðarmenn vilja tryggja jafnræði til heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og frá þeirri stefnu má aldrei hvika. Jafnaðarmenn vilja jafnframt nýta markaðsaðferðir þar sem það á við til að tryggja hagkvæmni, m.a. í rekstri, án þess að það komi niður á jafnréttinu. Í yfirskrift mikillar vinnu Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum fyrir nokkrum árum setti flokkurinn sér þrjú markmið. Í fyrsta lagi að endurskipuleggja heilbrigðiskerfið frá grunni með betri heilbrigðisþjónustu og betri nýtingu fjármuna að leiðarljósi. Í öðru lagi að fjárfesta í rannsóknum og þróun heilbrigðisgeirans. Í þriðja lagi að tryggja að aðgengi að heilbrigðisþjónustu verði óháð efnahag og öðrum félagslegum aðstæðum.

Samfylkingin hefur enn fremur sett sér fjórar forsendur fyrir öllum breytingum í heilbrigðiskerfinu. Í fyrsta lagi að aðgengi allra landsmanna að heilbrigðiskerfinu sé óháð efnahag. Í öðru lagi að þjónusta við sjúklinga batni. Í þriðja lagi að beinn kostnaður við sjúklinga aukist ekki. Í fjórða lagi að fjármunir hins opinbera nýtist vel.

Frú forseti. Þessi markmið og forsendur eru uppfyllt í þessu frumvarpi um sjúkratryggingastofnun. En förum nú aðeins yfir nokkur grundvallaratriði sem birtast í frumvarpinu.

Í greinargerð frumvarpsins segir að meginmarkmiðið með stýringu innan heilbrigðiskerfisins hér á landi sé þríþætt. Í fyrsta lagi að tryggja öllum borgurum þjóðfélagsins bestu þjónustu heilbrigðiskerfisins með aðgangi óháð efnahag. Í öðru lagi að tryggja hagkvæman rekstur heilbrigðisstofnana. Í þriðja lagi að tryggja þjóðhagslegan hámarksávinning af rekstri heilbrigðiskerfisins með forgangsröðun og útgjaldastýringu og ná þannig stjórn á heildarútgjöldum og hámörkun á heilbrigði miðað við tilkostnað Þetta eru mikilvæg markmið og ég vona að flestir geti tekið undir þau markmið.

Í öðru lagi kemur fram í frumvarpinu að aðgangur að heilbrigðiskerfinu verður óháður efnahag. Við þurfum ekki annað en að líta á 1. gr. frumvarpsins, en þar segir:

„Markmið laga þessara er að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag …“ .

Ákvæðið felur í sér lýsingu á grundvallarréttindum sjúkratryggðra sem líta ber til við framkvæmd laga um sjúkratryggingar og hafa til fyllingar við skýringu einstakra ákvæða laganna.

Í 40. gr. segir einnig:

„Við samningsgerð skal tryggja aðgengi sjúkratryggðra að þeirri heilbrigðisþjónustu sem samið er um óháð efnahag.“

Aftur er minnst á þetta grundvallarprinsipp.

Í þriðja lagi segir í frumvarpinu í greinargerð þess:

„Ekki er um aukna gjaldtöku að ræða frá núgildandi ákvæðum laga um almannatryggingar og laga um heilbrigðisþjónustu.“

Í 43. gr. stendur beinlínis:

„Um gjald sem sjúkratryggður greiðir fyrir þjónustuna fer skv. 29. gr. og er veitendum þjónustu óheimilt að krefja hann um frekara gjald.“

Og í greinargerðinni stendur:

„Veitanda þjónustunnar er þannig óheimilt að krefja sjúkratryggðan um annað eða hærra gjald en gert er ráð fyrir að hann greiði samkvæmt 29. gr. frumvarpsins.“

Þetta þýðir á mannamáli að það er einfaldlega bannað að kaupa sig fram fyrir röðina. Í þessu frumvarpi er verið að banna það að fólk njóti fjárhagslegs forskots í heilbrigðiskerfinu.

Frú forseti. Þá erum við komin með þessi þrjú mikilvægu atriði á hreint. Þjónustan verður óháð efnahag, það eru engar auknar gjaldtökuheimildir í þessu frumvarpi og það verður ekki leyfilegt að kaupa sig fram fyrir röðina. Þetta er nú ekki amalegt. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin geti verið stolt af þessum áhersluatriðum í frumvarpinu. Það er spurning hvað hv. þingmenn Vinstri grænna segja um þessi atriði sem standa skýrum orðum í frumvarpinu en eins og kom hér fram áðan er óvíst hvort þeir hafa lesið frumvarpið.

Í fjórða lagi segir í frumvarpinu, í 39. gr., að sjúkratryggingastofnunin geri samninga við heilbrigðisstofnanir, samanber lög um heilbrigðisþjónustu, sveitarfélög, sjálfseignarstofnanir, fyrirtæki og einstaklinga um veitingu heilbrigðisþjónustu og greiðir þeim endurgjald í samræmi við ákvæði samninganna.

Og í athugasemdum við þessa grein segir:

„Ekki er gert ráð fyrir að stofnunin semji við fagfélög eða stéttarfélög eins og tíðkast hefur.“

Þetta er gríðarlega mikilvægt og mun koma í veg fyrir að heilu heilbrigðisstéttirnar nái einokunarstöðu gagnvart hinu opinbera með því að sameinast gegn því undir þeirri hótun að náist ekki samningar á forsendum stéttanna verði enginn úr stéttinni tilbúinn að vinna fyrir hið opinbera. Og þessu tengt er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt að vel sé búið að hinni nýju stofnun og vel sé til vandað varðandi kostnaðargreininguna.

Í 5. gr. frumvarpsins kemur fram að að viðmót þjónustunnar megi ekki vera lakara en nú er og er gert ráð fyrir því að Tryggingastofnun og sjúkratryggingastofnun reki m.a. sameiginlega afgreiðslu og þjónustu.

Í 38. gr. frumvarpsins segir að séu samningar um heilbrigðisþjónustu ekki fyrir hendi sé í sérstökum tilfellum heimilt tímabundið að endurgreiða sjúkratryggðum útlagðan kostnað vegna heilbrigðisþjónustu á grundvelli gjaldskrár sem sjúkratryggingastofnunin gefur út. Þetta ákvæði er nýmæli. Í athugasemdum við 38. gr. segir:

„Meginreglan er enn sem fyrr að í öllum tilvikum þurfi að liggja fyrir samningar milli sjúkratryggingastofnunarinnar og veitenda þjónustu ef til þess á að koma að ríkið greiði hlutdeild í kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Í einstökum afmörkuðum tilvikum þykir þó rétt að sjúkratryggingastofnuninni sé heimilt að endurgreiða sjúkratryggðum útlagðan kostnað vegna heilbrigðisþjónustu á grundvelli gjaldskrár sem sjúkratryggingastofnunin gefur út. Gert er ráð fyrir að ávallt verði gripið til slíks úrræðis tímabundið og að ákvæðið heimili ekki að komið sé á varanlegu endurgreiðslukerfi án þess að fyrir liggi samningar milli sjúkratryggingastofnunarinnar og viðsemjenda. Einkum er gert ráð fyrir að ákvæðið verði nýtt til að brúa millibilsástand þegar samningaviðræður standa yfir og ekki hafa verið gerðir fullnægjandi samningar um heilbrigðisþjónustu á afmörkuðu sviði.“

Hér er verið að koma, á mannamáli, í veg fyrir að myndist varanlega ástand samningslausra lækna.

Í sjötta lagi langar mig að minnast aðeins á 40. gr. en þar kemur fram að við samningsgerð um heilbrigðisþjónustu skuli þess gætt að raska ekki þeirri þjónustu sem veita ber samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Og í greinargerð um þetta ákvæði er beinlínis sagt, frú forseti:

„Ekki er gert ráð fyrir að samið sé við einkaaðila um veitingu þjónustu ef slíkt raskar hinu opinbera þjónustukerfi. Þannig er ekki unnt að tína út ábatasömustu þjónustuþættina ef það þýðir að opinber stofnun missi hæfni til að veita þjónustu á hagkvæman og öruggan hátt.“

Í sjöunda lagi er skilið í frumvarpinu á milli kaupanda og veitanda þjónustunnar, enda á það ekki að skipta máli hvernig kötturinn er á litinn svo fremi sem hann veiðir. Þetta er í anda þess sem nágrannaþjóðirnar hafa fyrir löngu gert og það er ekkert leyndarmál að sænska kerfið er sérstök fyrirmynd að þeirri uppstokkun sem hér á sér stað. Auðvitað er það sérstök ánægja fyrir alla krata að hér skuli hafa verið leitað til höfuðvígis jafnaðarmanna, Svíþjóðar, þegar kom að samningu þessa frumvarps og þess er skemmst að minnast að vinstri menn þar hafa einnig stutt þær breytingar sem við erum að tala hér fyrir. Þess vegna kemur afstaða vinstri grænna enn á óvart hvað þetta varðar.

Eftir samþykkt þessa frumvarps verður ríkið hins vegar áfram aðalkaupandinn. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir breytingu á því. Það kemur fram að tæplega þriðjungur af útgjöldum vegna heilbrigðisþjónustu rennur nú til greiðslu fyrir þjónustu sem aðrir en ríkið veita og þar er nefnt að ýmsar öldrunarstofnanir, endurhæfingarstofnanir, einkareknar rannsókna- og læknastofur, heilsugæslustöðvar og sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingar eru innan þess kerfis sem nú þegar er fyrir hendi. Enn fremur má nefna starfsemi félagasamtaka eins og Krabbameinsfélags Íslands, SÁÁ og endurhæfingarstöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra sem dæmi um einkarekna heilbrigðisþjónustu sem vinstri grænir virðast alls ekki geta þolað. Starfsemi þessara aðila hefur alla tíð verið fjármögnuð úr opinberum sjóðum og þeim sem á þurfa að halda hefur verið tryggður aðgangur að þeirri þjónustu, svo gott sem, ef ekki algerlega að kostnaðarlausu.

Herra forseti. Hér er því á ferðinni gott frumvarp sem tryggir að aðgangur að heilbrigðisþjónustunni verður óháður efnahag. Það hefur engar nýjar gjaldtökuheimildir. Það bannar kaup fram fyrir röðina. Það kemur í veg fyrir einokunarstöðu heilbrigðisstétta gagnvart hinu opinbera og takmarkar möguleika lækna að vera utan samninga. Þá aðskilur frumvarpið veitanda og kaupanda þjónustunnar í anda sænsku leiðarinnar og kemur í veg fyrir að hæfni opinberra stofnana sé skert með þeim hætti að einkaaðilar tíni ábatasömustu þjónustuþættina út. Frumvarpið tryggir sömuleiðis að fjármagn fylgi sjúklingnum. Það hlýtur að vera fagnaðarefni allra sem vilja setja sjúklingana í forgang. Og það er hugsunin á bak við þetta frumvarp, herra forseti. Markmiðið um betra heilbrigðiskerfi fyrir alla ætti því að nást enn betur með því skrefi sem þetta frumvarp getur um.