135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:13]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um sjúkratryggingar. Áhugavert var að fylgjast með atkvæðagreiðslu fyrr í dag þar sem glögglega komu í ljós geðþóttaákvarðanir sumra stjórnarandstöðuþingmanna um það hvaða frumvörpum á að hleypa í gegn með skilyrðum og hverjum ekki. Sumir þingmenn hafa hleypt í gegn frumvörpum sem komu inn og bar að með sama hætti og sjúkratryggingafrumvarpið, og nefni ég almannatryggingafrumvarpið, en hafna síðan sjúkratryggingafrumvarpinu. Geðþóttaákvörðun heitir þetta, hæstv. forseti, og það kemur í ljós að í þinginu eru stjórnarandstöðuþingmenn sem eru ekki einu sinni sjálfum sér samkvæmir í atkvæðagreiðslu hvað þá öðru. Þeim er umhugað um þingsköp en ég held, hæstv. forseti, að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafi farið nærri því að brjóta þingsköp með því að bera fram spurningu til hæstv. ráðherra í fyrra andsvari sínu til hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Menn ættu þá að kynna sér þingsköpin og vera samkvæmir sjálfum sér í því sem öðru.

Hæstv. forseti. Markmiðið með umræddu frumvarpi til laga um sjúkratryggingar er að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag samkvæmt nánari ákvæðum frumvarpsins og er í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, lög um réttindi sjúklinga og önnur lög eftir því sem við á. Jafnframt er það markmið frumvarpsins að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustunnar og hámarksgæðum hennar. Það er einnig markmið frumvarpsins að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustunnar og að kostnaðargreina þjónustuna. Allt þetta fer fyrir brjóstið á vinstri grænum.

Í III. kafla frumvarpsins, 9.–38. gr., er með skýrum hætti mælt fyrir um réttindi einstaklinga til að njóta sjúkratrygginga og þar með til heilbrigðisþjónustu sem greiðist úr ríkissjóði. Þá er og í IV. kafla frumvarpsins, 39.–49. gr., kveðið á um hvernig staðið skuli að samningum um heilbrigðisþjónustu og endurgjald ríkisins fyrir þá þjónustu.

Hæstv. forseti. Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru að sjúkratryggingakafli laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, er fluttur í frumvarpið og ákvæðin sett upp með öðrum hætti. Kveðið er skýrar á um markmið sjúkratrygginga, gildissvið laga um sjúkratryggingar er afmarkað og helstu hugtökin skilgreind sbr. I. kafla. Sjúkratryggingar eru skilgreindar með ítarlegri hætti og taka til heilbrigðisþjónustunnar og annarrar aðstoðar sem ákveðið hefur verið með lögum, reglugerðum eða samningum að veita á kostnað ríkisins eða með greiðsluþátttöku ríkisins. Jafnframt taka sjúkratryggingar til bóta samkvæmt lögum sem greiddar eru með peningum. Þetta, hæstv. forseti, virðist fara fyrir brjóstið á vinstri grænum í frumvarpinu.

Kveðið er á um nýja sjúkratryggingastofnun, hlutverk hennar, stjórn og forstjóra skv. II. kafla og 5. gr. Hlutverk stjórnar og forstjóra nýrrar stofnunar er sambærilegt hlutverki stjórnar og forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt vinstri græna hreyta ónotum í þá stofnun eða þá forstjóra og ráð er fyrir gert að þessar tvær stofnanir, sjúkratryggingastofnun og Tryggingastofnun ríkisins, reki sameiginlega afgreiðslu, þjónustu og upplýsingagjöf til notenda þjónustunnar og er það vel.

Hæstv. forseti. Mér segir svo hugur að væntanlega geti flestir þingmenn verið jákvæðir gagnvart frumvarpinu að því leyti sem það tekur til annarra þátta en nýrrar stofnunar en skv. 5. gr. er hlutverk sjúkratryggingastofnunar, með leyfi forseta:

„Að annast framkvæmd sjúkratrygginga skv. III. kafla.

2. Að semja um heilbrigðisþjónustu skv. IV. kafla.

3. Að annast kaup á vörum og þjónustu sem henni ber að veita skv. III. kafla.

4. Að greiða endurgjald fyrir heilbrigðisþjónustu sem veita ber samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu eða samið hefur verið um, sbr. IV. kafla.

5. Að sinna öðrum verkefnum sem henni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.“

Hæstv. forseti. Við Íslendingar berum okkur gjarnan saman við önnur lönd og vísum oftar en ekki til Norðurlandanna og annarra vestrænna ríkja í því sambandi. Heilbrigðiskerfin í Svíþjóð og Bretlandi eiga það sameiginlegt með íslenska heilbrigðiskerfinu að kostnaður við þjónustuna er fjármagnaður með sköttum og opinber rekstur á sér langa sögu í þessum löndum eins og á Íslandi. Þessi lönd eru meðal þeirra landa sem hafa hvað mesta reynslu af innleiðingu á fyrirkomulagi kaupenda og seljenda innan opinbers heilbrigðiskerfis. Þau og þá einkum Svíþjóð eru góð viðmið fyrir það verkefni sem nú er fram undan í íslenska heilbrigðiskerfinu.

Sérstaklega ber að taka fram að með hugmyndinni sjúkratryggingastofnun og orðunum „kaupandi“, „seljandi“ eða „veitandi“ þjónustu er ekki, ég ítreka það, verið að opna frjálsan markað þar sem kaupendur og seljendur ryðjast inn til að eiga viðskipti heldur eru hugtökin notuð til þess að skilgreina betur tvo mismunandi þætti þjónustunnar og er afar mikilvægt að allir hafi það í huga og reyni ekki að gera það tortryggilegt. Þessir þættir tveir, kaupandi og seljandi, eru til staðar í dag, þ.e. sá aðili sem greiðir fyrir þjónustuna og sá sem veitir hana. Hér á Íslandi verður ríkið áfram eini kaupandinn en þeir sem veita þjónustuna, seljendurnir, geta verið ríkið, sjálfseignarstofnanir, félagasamtök, einkaaðilar og í sumum tilfellum sveitarfélög. Við höfum þetta svona í dag.

Hæstv. forseti. Með nýrri stofnun er líka stefnt að því að sameina alla þá þekkingu sem er innan ríkisgeirans sem fer með greiðslur, samninga og kaup fyrir heilbrigðisþjónustu til að ná samlegðaráhrifum slíkrar þekkingar á einn stað og þróa slíka þekkingu miðað við aukna sérfræðiþekkingu sem þessir verkþættir þurfa að hafa og kalla á, en ekki síður, hæstv. forseti, til að mæta vaxandi kröfum um gegnsæi í samskiptum ríkisins og borgaranna. Það skiptir máli.

Það að skilgreina ríkið sem kaupanda og þjónustuaðila sem seljendur er gert til að gera heilbrigðiskerfið gegnsærra, auka kostnaðar- og gæðavitund sem knýr á um betri skilgreiningu á því hver er að gera hvað og hvernig ber að skilgreina og verðleggja þjónustu. Þetta er sú leið sem mörg nágrannaríki okkar fara og hafa farið til að leita leiða við að stýra betur rekstri heilbrigðiskerfa sinna, veita gæðaþjónustu og auka hagkvæmni.

Hæstv. forseti. Jónínunefndin svokallaða, sem Jón Kristjánsson, þáverandi heilbrigðisráðherra, skipaði þann 8. október 2003, skilaði af sér í mars 2006 en hafði áður, í aprílmánuði 2004, skilað áfangaáliti um starf nefndarinnar og jafnframt leitað eftir lengri tíma til að ljúka því starfi og var það veitt. Í þessari nefnd áttu sæti, með leyfi hæstv. forseta, Jónína Bjartmars formaður, Drífa Hjartardóttir, Elsa B. Friðfinnsdóttir, Garðar Garðarsson, Halldór Jónsson, Magnús Pétursson, þáverandi forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss, Margrét Frímannsdóttir, Sigurbjörn Sveinsson og Stefán B. Sigurðsson. Skýrslan ber heitið Hver gerir hvað í heilbrigðisþjónustunni? og í tillögu nefndarinnar stendur m.a., með leyfi forseta:

„Nefndin leggur til: Samningur um kaup á hvers kyns heilbrigðisþjónustu sem greidd er af opinberu fé verði á einni hendi innan stjórnsýslunnar. Skilgreindur verði einn kaupandi heilbrigðisþjónustu á landinu er hafi yfirsýn, geti metið kosti og velji þá viðskiptahætti sem hverju sinni eru taldir skila bestum árangri, svo sem bein kaup, útboð eða annars konar fyrirkomulag allt eftir aðstæðum.“

Hæstv. forseti. Hér er forskriftin að nýrri stofnun í 5. gr. frumvarpsins og nefnd er sjúkratryggingastofnun. Það vekur hins vegar furðu mína að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sem tók við embætti heilbrigðisráðherra af Jóni Kristjánssyni, gerði ekkert með þessar tillögur, að pólitískri umræðu um heilbrigðiskerfið var ekki fram haldið þegar skýrslan var kynnt í þinginu í mars 2006. Það er skondið að fylgjast með hv. þingmönnum Framsóknarflokksins sem nú reyta hár sitt yfir þessu frumvarpi og finna því eiginlega allt til foráttu. Umrædd nefnd var nefnilega ekki einungis skipuð sjálfstæðismönnum, eða hvað? Má ekki finna þar innan borðs þekkta flokksmenn annarra flokka en samt, hæstv. forseti, leggja þeir til tillögur til úrbóta í heilbrigðisþjónustunni eins og þeir gera. Öðruvísi mér áður brá.

Hæstv. forseti. Íslenska heilbrigðiskerfið hefur til að bera styrkleika sem ætla má að gefi framkvæmdinni þó nokkurt forskot miðað við það sem gerðist í Svíþjóð og í Bretlandi. Meiri fjölbreytileiki er nú þegar til staðar í íslenska kerfinu og framkvæmd heilbrigðisþjónustunnar hér á landi er á hendi ríkisins, sjálfseignarstofnana, félaga og einkaaðila. Í íslenska kerfinu er þegar til staðar umtalsverð þekking á þróun reiknilíkana, greiðslukerfa og samningatækni sem nýtast mun strax í upphafi innleiðingar. Sameining og þar með samþjöppun sérþekkingar innan einnar stofnunar, eins og 5. gr. kveður á um, mun verða styrkur í innleiðingu þessara breytinga hér á landi.

Hæstv. forseti. Töluvert hefur verið rætt um félagslegt heilbrigðiskerfi. Í félagslegum heilbrigðiskerfum er þjónustan fyrst og fremst fjármögnuð af hinu opinbera sem skipuleggur þjónustuna og greiðir þjónustuveitendum fyrir að veita hana. Heilbrigðiskerfið á Íslandi verður áfram fjármagnað af hinu opinbera. Þar verður engin breyting. En fleiri koma að því að skipuleggja þjónustuna, veita hana og fá greitt fyrir. Við þekkjum það fyrirkomulag í dag, t.d. á hjúkrunarheimilum, og maður spyr sig: Hvað er það sem hv. þingmenn Vinstri grænna óttast í raun í frumvarpinu? Hvað hefur verið nefnt einkavæðing? Hvar er það sem ógnin gagnvart íslenska heilbrigðiskerfinu liggur í þessu ágæta frumvarpi? Ef eitthvað, hæstv. forseti, er verið að gera heilbrigðiskerfið heilbrigðara. Það er verið að gera það gegnsærra. Það er verið að sýna fram á hvar og hvernig við ætlum sem þjóð að veita einstaklingum í landinu frábæra heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða með því úrvalsfagfólki sem við eigum innan heilbrigðisgeirans. Það er dapurt að í pólitík, þegar menn greinir á um markmið og leiðir, sjái menn ekki ljós í frumvarpi sem þessu og nýti sér allt, hvar sem það er að finna, til að gera hluti tortryggilega. Það er í mínum huga afar sérkennileg pólitík. Það er ekki póltík sem gagnast þjóðinni minni. Það er ekki pólitík sem gagnast sjúklingum í heilbrigðiskerfinu. En fyrst og fremst, hæstv. forseti, er heilbrigðiskerfinu með frumvarpinu ætlað að tryggja öllum þegnum samfélagsins jafnan aðgang og á því verður engin breyting.