135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:30]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er mikill þingmeirihluti og það er alveg ljóst að vilji stjórnarþingmenn hleypa málum í gegn eða taka á dagskrá mál sem þarf heimild þingsins til að taka á dagskrá geta þeir það og gera það. Stjórnarandstöðunni ber að skoða hvort þetta eru mál sem eru mikil að vöxtum og pólitískt umdeild eða hvort þetta eru mál af þeim toga að sjálfsagt sé að veita þeim brautargengi. Ég tel að það sé ábyrg pólitík að meta mál sem ríkisstjórnin ætlar að koma með löngu eftir þann tíma sem þingsköp segja til um að mál eigi að liggja frammi og ég spyr hv. þingmann: Hvers vegna segja þingsköpin til um það að mál skuli vera komin fyrir 1. apríl? Er það ekki til þess að löggjafarþingið vinni eins og á að vinna og geti farið yfir málin? Það er ekki að ástæðulausu.

Ég vil líka nefna annað sem hv. þingmaður kom inn á. Hún talar um að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerum allt svart. Við höfum í raun og veru ekki tjáð okkur um efnisinnihald þessa frumvarps. Við viljum fara að vinna og skoða frumvarpið og við ætlum að skoða það með opnum huga. Við höfum efasemdir um margt eins og þegar verið er að líta til Bretlands þar sem við vitum að þar hefur markaðsvæðingin ekki gengið að óskum. Það er ekki eingöngu að það sé ekki við hæfi eins og þingmaðurinn lýsti að mála allt svart, það er heldur ekki við hæfi í pólitík að mála allt gyllt og í raun og veru að blekkja fólk með gylliboðum þegar ekki er innihald fyrir lýsingunni.