135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:55]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni. Kosturinn við það kerfi sem hér er lagt til að koma á er að losa starfsfólkið í hinum opinberu stofnunum undan þeirri aðstöðu að skera við nögl þjónustu vegna þess að fjárveitingarnar eru ákvarðaðar á grundvelli annarra sjónarmiða en þeirra að greitt sé fyrir þá þjónustu sem verið er að veita. Að fjármagnið fylgi sjúklingunum, þeirri þjónustu sem verið er að veita og að borgað sé fyrir hana. Eins og nú háttar til í fjárlagagerðinni skera menn einfaldlega niður þjónustustig til að falla innan fjárlagaramma.

Það sem þetta kerfi gerir er að frelsa opinberar stofnanir sem veita heilbrigðisþjónustu úr þessu kæfandi faðmlagi fjárlagavaldsins og skapar þeim nýjar forsendur til að veita þjónustu með vitrænum hætti. Ég held að við hv. þingmaður getum verið algjörlega sammála um að þetta er skynsamlegt fyrirkomulag til þess að losa fólk úr þeirri aðstöðu.

Síðan er gert ráð fyrir að komið verði á heildstæðu eftirlitskerfi þannig að það verði ekki íþyngjandi og að veitendur þjónustunnar geti sannarlega snúið sér að því að hugsa um þá sem þjónustunnar þurfa með en ekki að standa í eilífri skýrslugerð.

Hv. þingmaður nefndi eitt í ræðu sinni sem ég vil taka undir, þ.e. hvort búið væri að rekja upp samspil Tryggingastofnunar ríkisins og sjúkratrygginga og hvort ýmislegt væri þar ekki óklárað. Þar er ég alveg sammála henni. Þess vegna skiptir svo miklu að þetta frumvarp verði afgreitt nú á vorþingi þannig að það komi skýr skilaboð frá löggjafarþinginu sem fyrst um það hvernig þessu eigi að hátta. Þá þarf starfsfólkið ekki lengur að búa við óvissu um það hvorum megin hryggjar það lendir heldur er hægt að ganga í málið af mikilli ákveðni og löggjafinn mun ekki skila auðu hvað það (Forseti hringir.) varðar.