135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:06]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði á andsvar hv. þm. Ástu Möller og mér fannst hún oftúlka orð mín. Ég vil fá að skoða frumvarpið og fara í gegnum það og kynnast viðhorfum þeirra sem stóðu að samningagerð eða framsetningu þess til að vita hvað liggur þarna að baki. Að því tilskildu og skoðuðu mun afstaða mín koma í ljós. Ég fór yfir nokkur atriði sem ég tel að vert sé að ræða við 1. umr. málsins.

Hæstv. forseti. Við vitum að margt er að breytast og það stendur til að gera margt. Það eru starfandi nefndir sem vinna að breytingu á greiðsluþátttöku sjúklinga, ein gengur undir nafninu Péturs Blöndals nefndin, og önnur nefnd vinnur að framtíðarskipan Landspítalans, Vilhjálms Egilssonar nefndin, og það á stokka upp starfsemi Landspítalans og auðvitað hangir þetta allt saman saman þegar maður horfir til framtíðar. Hvernig verður greiðsluþátttaka sjúklinganna, hvernig verður þetta kerfi? Er það hugsað inn í þessar breytingar sem hér eru til umræðu eða er þetta algjörlega óháð þeim? Munum við taka þetta allt saman upp, þennan sjúkratryggingaþátt algjörlega, þegar nýja greiðsluþátttökukerfið kemur?

Varðandi útboð væri mjög þarft að fara í kostnað vegna útboðs og vegna einkareksturs innan Landspítalans. Hann hefur verið stundaður þar, bæði hvað varðar hjúkrunarþjónustu og ýmsa starfsemi. Af einhverju er verið að hætta við einkarekna hjúkrunarþjónustu inni á Landspítalanum. (Forseti hringir.) Málið var að hún var dýrari.

Það er líka hægt (Forseti hringir.) að gylla hlutina og segja að með útboðum séu þeir ódýrari sem eru það þó ekki þegar nánar er skoðað.