135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má taka undir að í lögum hafa að undanförnu verið opnar heimildir sem maður hefur að sjálfsögðu haft áhyggjur af en þær hafa ... (Gripið fram í.) Það er nú upp og ofan, hv. þingmaður. En þær hafa ekki verið fyrr en nú upp á síðkastið í samhengi við þá einkavæðingar- og úthýsingarstefnu sem er leiðarljós þessarar ríkisstjórnar. Það sem ég var að reyna að sýna fram á í málflutningi mínum var að lögin eru eitt og stefnan og framkvæmdin annað og sú hugmyndafræði sem þar liggur að baki. Það þarf að hafa hana í huga þegar við veltum því fyrir okkur hvað gerist svo. Hvernig þróast svo kerfið í framhaldinu? Ég talaði ekki af fyrirlitningu um kostnaðargreiningu sem slíka og að sjálfsögðu ... (Gripið fram í.) Ja, menn geta þá kallað það hvað sem þeir vilja. Menn geta jarmað hér alveg eins og þeir vilja fram í fyrir mér, lesi menn þá bara ræðu mína. Ég er ekki að tala um að við þurfum ekki að hafa kostnaðarþáttinn í huga og ég veit ekki betur en það hafi verið gert. Menn hafa verið með ýmsar viðmiðanir og samanburð, mælt okkur og borið okkur saman við aðra o.s.frv. þótt það hafi ekki verið á grundvelli þessarar hugmyndafræði að sjálfsögðu. Menn eiga ekki að láta eins og það kerfi sem verið hefur fram að þessu sé frumstætt og algert miðaldakerfi. Hvers konar lítilsvirðing er það um heilbrigðismál og þá sem þar hafa ráðið ferðinni á Íslandi á undanförnum áratugum? Eru innstæður fyrir því að tala þannig um það fyrirkomulag sem hér hefur verið við lýði og þá sem borið hafa á því pólitíska og faglega ábyrgð undanfarna áratugi? Ég tel ekki. Menn geta ekki sagt í öðru orðinu að heilbrigðiskerfið sé mjög gott og fái háa einkunn og talað svo um það svona að hinu leytinu til.

Það sem ég er hins vegar að ræða er hugmyndafræðin og hversu langt menn ætla að ganga og hver þróunin verður í framhaldinu. Það skiptir að mínu mati mestu og það er sjálfsagt ekkert leyndarmál og leynist sjálfsagt ekki að þar treystum við illa þeim sem nú fara með völdin.