135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:35]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég túlka ræðu hv. þingmanns þannig að hann deili með mér þeirri skoðun að æskilegt sé að leiða í lög umgjörð sem skilgreinir með hvaða hætti hægt er að beita þeim heimildum sem nú þegar eru í lögum. Markmið þessa frumvarps er að koma á faglegri umgjörð fyrir ákvarðanir um greiðslur hins opinbera fyrir heilbrigðisþjónustu. Við þurfum að losa hina opinberu þjónustuveitendur undan því kverkataki fjárlagavaldsins sem þeir búa við í dag þar sem þeir þurfa að sæta því að fjárlagavaldið skikki þá til að breyta þjónustustiginu til að falla innan fjárlagaheimilda og menn eiga einskis annars úrkosti. Þvert á það sem hv. þingmaður sagði áðan má ætla að breyting í þá átt að fjármagn fylgi sjúklingum og að greitt sé fyrir þjónustu með faglegum hætti verði til að styrkja smáar rekstrareiningar úti á landsbyggðinni.

Aðstöðumunurinn sem þær búa við í samanburði við stórar rekstrareiningar á höfuðborgarsvæðinu þar sem auðveldara er að jafna niður rekstrarkostnaðinn verður væntanlega jafnaður vegna þess að skýrt er tekið fram í lögunum að samningar sjúkratryggingastofnunar eigi að taka mið af því að tryggja aðgang að þjónustunni óháð búsetu. Hér erum við í grunninn að jafna aðstöðumun á milli hinna opinberu aðila og einkaaðilanna sem hafa verið með samninga. Einkaaðilarnir hafa yfirleitt verið með samninga sem hafa verið tengdir þjónustu og því fengið greitt fyrir unnin verk. Opinberir aðilar hafa ekki búið við þær aðstæður. Það er mikilvægt að hinir opinberu þjónustuveitendur geti fengið þannig greiðslur líka og við losum þannig hinar opinberu þjónustustofnanir úr þessum ógöngum sem þær hafa verið í hvað þetta varðar.