135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:37]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Kverkatak fjárveitingavaldsins, ógöngur opinberra stofnana. Halda menn að það sé kerfið sem þar hafi brugðist? Heldur hv. þm. Árni Páll Árnason að það verði til nógir peningar bara ef við gerum þessa kerfisbreytingu? Er þá bara hægt að stórauka fjárveitingarnar fyrir heilbrigðisstofnanir út um allt land? Er það tilgangur málsins? Ég hélt nú ekki. Ég hélt að eitthvað annað stæði hér og hefði reyndar staðið upp úr ýmsum ræðumönnum. Mér finnst nokkuð sérkennilegt að tala eins og við komumst inn í einhvern allt annan veruleika með þessari kerfisbreytingu þar sem peningar séu aldrei vandamál og allir geti gert allt sem þeir vilja í heilbrigðismálum. Auðvitað hafa menn litið svo á að það væri nauðsynlegt að halda sig innan fjárlaga og að veitt væri aðhald að fjárlögum þegar þau hafa einu sinni verið ákveðin. Deilurnar hafa staðið um að veita næga peninga til að þessi þjónusta gæti farið fram með sómasamlegum hætti, að ekki væru sumarlokanir eða nauðungarflutningar á veiku fólki o.s.frv. Halda menn að kerfið hafi brugðist gagnvart því að það sé jafnrétti hvað varðar endurgreiðslu, t.d. vegna ferðakostnaðar sjúklinga? Nei, það hefur vantað peninga í það. Halda menn að kerfið hafi brugðist þegar kostnaðarþátttaka sjúklinga vegna lyfja hefur rokið upp á undanförnum árum? Nei, það vantar peninga til þess að lyf væri nægjanlega mikið niðurgreidd. Það er ekki hægt að stilla hlutunum svona upp, hv. þingmaður, að þetta sé bara spurning um einhverja kerfisbreytingu. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki verið að tala um það. (ÁPÁ: Jú, ...) Það er voðalega erfitt að ræða við þessa hv. þingmenn sem hafa greinilega engan áhuga á málefnalegri umræðu um þetta mál, þola hana ekki. Það má ekki ræða grundvallarhugmyndafræðina sem hér er á ferðinni, þá fer allt á flug í þingsalnum og sjálfstæðismenn og samfylkingarmenn verða eins og flær á skinni út um allan sal, kallandi fram í. Má ég biðja um að menn reyni þá bara að ræða um þetta á þeim grunni sem ég hef gert, að ræða um grundvallarhugmyndafræðina, (Forseti hringir.) stefnuna í heilbrigðismálunum vel? Þora ríkisstjórnin og talsmenn hennar kannski ekki að gangast við sinni eigin stefnu (Forseti hringir.) og ákvæðum stjórnarsáttmálans?