135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:39]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór í gegnum það í ræðu minni áðan, sem ég veit ekki hvort hv. þm. hefur hlustað á, að fyrir liggja skýrslur sérfræðinga bæði innan lands og erlendis þar sem þeir mæla sérstaklega með því að við förum frá því fjármögnunarkerfi sem er í dag. Það gerum við með sérstökum fjárlögum yfir í að kostnaðargreina þjónustuna og aðskilja kaupendur og seljendur að heilbrigðisþjónustu, kaupendur og veitendur, svo ég noti orð sem kannski hugnast hv. þingmönnum Vinstri grænna betur. Hvers vegna ættum við að líta fram hjá þessum ágætu sérfræðingum? Það liggja fyrir fleiri skýrslur sem komið hafa frá þeim í gegnum árin. Af hverju ættum við líta fram hjá niðurstöðum sem komu fram í svokallaðri Jónínuskýrslu þar sem þeir segja að Svíar meti fjárhagslegan ávinning af breytingum á fjármögnun í heilbrigðisþjónustu nærri 10% auk meiri ánægju sjúklinga með þá meðferð sem þeir fá? Það er því er eftir miklu að slægjast. 10% innan heilbrigðisþjónustunnar eru hreint og beint 10–12 milljarðar kr. Það er töluvert fjármagn.

Við höfum ágæta reynslu hér á landi varðandi vinnu sjálfseignarstofnana og einkaaðila í þessa veru. Við getum m.a. séð það á fregnum um rekstur í Salahverfinu, þar eru afköst, afköst sem fóru mjög fyrir brjóstið á hv. þingmanni áðan. Afköstin þar eru 60% meiri heldur en almennt gerist á heilsugæslustöðvum. Á svipuðum tíma voru gerðar kannanir um ánægju fólks með þjónustuna og þar skoruðu þeir hæst. Ég get ekki séð annað en að við höfum þannig dæmi fyrir augunum á okkur að við getum ekki litið fram hjá þessu. Við fáum meira fyrir peninginn, við fáum betri þjónustu þó að það sé ekki alveg hægt að alhæfa en margar vísbendingar eru í þá veru. Af hverju ættum við að hunsa þær?