135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:46]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það getur vel verið að það sé bara þannig að það sé um að gera að setja verðmiða á hvern einasta mann og verðreikna hvert einasta viðvik og reikna svo bara út hvað mannslífið má kosta og svo framvegis. (Gripið fram í: Útúrsnúningur.) Ja, er það endilega útúrsnúningur? Hversu langt ætlum við að fara í þessum efnum? Er það endilega þannig að þetta sé sú hugmyndafræði sem við viljum leggja til grundvallar í einu og öllu á öllum sviðum hins mannlega lífs, þ.e. að það séu peningarnir og kostnaðurinn sem alls staðar eigi að vera leiðarljósið og ráða ferð? Er það hið manneskjulega og góða velferðarsamfélag sem við viljum búa í? Ég er ekki jafnsannfærður í þeim efnum greinilega og hv. þingmaður um ágæti þessa.

Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að ræða á hverjum tíma nýjar leiðir og hvað við getum gert til að bæta þjónustu og festa hana í sessi. En er þetta ný leið? Er þetta ekki 30–40 ára gömul nýfrjálshyggju- og markaðsvæðingarhugmyndafræði sem var troðið inn í velferðarþjónustu Vesturlanda? Og þessi öfluga aflvél einkafjármagnssjónarmiðanna ryður brautina áfram, að minnsta kosti hér uppi á Íslandi þó að það sé farið að slá dálítið í hugmyndafræðina víða annars staðar satt best að segja.

Við höfum lagt til nýjar leiðir — nýjar og gamlar og góðar — eins og að efla grunnheilsugæsluna, hafa hana á opinberri hendi, hafa hana samþætta. Þar sem þjónustan er að mínu mati best á Íslandi þá er hún einmitt þannig eða hefur verið, í einni öflugri samþættri heilsugæslustöð eins og á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu. Ég hef oft sagt það hér og get endurtekið það að mér er til efs að nokkurt svæði á landinu búi við jafngóða og heilsteypta þjónustu vegna þess að þar er hún uppbyggð samþætt og heildstæð og á hendi hins opinbera.

Við höfum til dæmis lagt til að einhvers konar valfrjáls tilvísun væri skoðuð í kerfinu. Er það ekki tiltekin leið, tiltekin aðferð? En hún er ekki endilega þessi markaðsvæðingar- og verðmiðaleið að hengja verðmiða (Forseti hringir.) á hvern einasta hlut sem hv. þm. Ásta Möller og hæstv. heilbrigðisráðherra og Samfylkingin virðast vilja sjá.