135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:18]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að þegar ég hlustaði á þessa sennu þar sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir benti hv. þm. Álfheiði Ingadóttur á hversu hjákátlegt það var að tala fyrir hönd þjóðarinnar, þá minnti það mig á þegar ég var líklega um 10 ára gamall og bar út blað í Borgarnesi. Það voru rosalega fáir áskrifendur og þeir þurftu endilega að dreifa sér um allt plássið þannig að það tók langan tíma að bera út en það vantaði ekki nafnið, það var auðvitað Þjóðviljinn þó að eiginlega enginn keypti það (ÁI: Veit ráðherra ekki hvaðan nafnið er komið?) og enn þá færri læsu það og það fór nú eins og allir vita, afskaplega illa. En það vantaði ekki stórt nafn. Ég man að ég las stundum þetta blað og alltaf voru menn að tala, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, fyrir hönd þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Ég var á ágætisfundi í gær eða hvort það var í fyrradag þar sem heilbrigðismálin voru rædd og þar sagði einn maður þetta, sem ég hélt að öllum væri ljóst, að það þyrfti ekkert að deila um það í íslenskri pólitík, það væru allir flokkar inni á því, að við vildum hafa heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða fyrir alla landsmenn. Það er svo sannarlega stefna okkar flokks, Sjálfstæðisflokksins, og hefur alltaf verið. Ég veit ekki af hverju og hvað það er sem fær menn, virðulegi forseti, til að hamast við og reyna að leggja þannig upp hlutina, og það er það sem þingmenn Vinstri grænna hafa því miður reynt hér, sumir hverjir, ekki allir, að búa til eitthvað annað úr þessari stefnu og vilja Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarinnar. Það er bara þannig að þetta er verkefni, og reyndar er það ekki séríslenskt, allra þeirra landa sem við berum okkur saman við. Og þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kemur hér upp og er með einhver gífuryrði um að heilbrigðisþjónustan sé í hættu, hvað er hv. þingmaður þá að tala um?

Hv. þingmaður var, ef ég man rétt, virðulegi forseti, upphafsmaður að umræðu um BUGL. Er BUGL í hættu, loksins þegar við sjáum árangur á því sviði, sem var engin tilviljun, sem kom til út af mjög mikilli vinnu við undirbúning sem er loksins að skila sér? Við þekkjum það öll, þingmenn, að það hefur oft verið rætt um þann málaflokk en aldrei með jafnjákvæðum formerkjum og síðast vegna þess að það var ástæða til. Er hv. þingmaður kannski að tala um lyfjamálin? Er eitthvað í hættu þar? Velkist einhver í vafa um að við höfum náð árangri þar eftir að hafa lagt mikla vinnu í það? Það gerðist svo sannarlega ekki af sjálfu sér.

Virðulegi forseti. Eru menn kannski að tala um samninga við hjartalækna? (ÖJ: Og læknaritara?) Hvað sagði formaður Læknafélagsins? Hann sagði að þeir hefðu farið af samningi vegna þess að ekki hafi verið unnið faglega af hálfu samninganefndar heilbrigðisráðuneytisins þegar þeir fóru af honum. En það sem var mikil breyting þar á er að þar náðu menn saman. Það er kannski stóra hættan? Eða voru það kannski fréttir um að nú sé Landspítalinn farinn að taka að sér tannréttingar barna með klofinn góm? Er það kannski hættan á þessum tímapunkti? Eða fréttin í dag, virðulegi forseti, í Fréttablaðinu, sem ber yfirfyrirsögnina Átján rúma einkarekin deild fyrir heilabilaða var opnuð í gær á Landakoti? Og fyrirsögnin: Léttir álagi af Landspítala svo ég megi lesa hana, með leyfi forseta:

„Átján rúma deild fyrir heilabilaða á Landakoti, sem rekin er af Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Grund, tók til starfa í gær. Þegar er byrjað að flytja sjúklinga af Landspítalanum en ætlunin er að deildin verði fullsetin sjúklingum þaðan á föstudag. Eftir þá flutninga er áætlað að aðeins 21 aldraður sjúklingur, sem lokið hefur meðferð á spítalanum en kemst ekki í hjúkrunarrými, verði þar eftir.“

Síðustu ár hefur sá fjöldi þó verið að meðaltali um 70–90 og hafa viðvarandi teppur verið á spítalanum vegna þessa. Í janúar 2004 biðu 140 manns. Er þetta kannski hættan? Þarna erum við samninga við þennan stórhættulega einkaaðila, Grund, þennan stórhættulega einkaaðila að mati vinstri grænna. Það er athyglisvert vegna þess að hér eru menn að reyna að búa til eitthvað allt annað en er til staðar. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hikar ekki við að fullyrða að þetta frumvarp og einkarekstur almennt ýti undir hækkun þjónustugjalda, hún hikar ekki við að fullyrða það. Ekkert bendir til þess. Hv. þingmaður segir hér, og aðrir, að fram til þessa hafi einkavæðing og einkarekstur í heilbrigðiskerfinu verið tilviljunarkenndur. Það er þá eitthvað fyrir hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni að fara yfir. Þeir geta farið yfir það. (Gripið fram í.) Það liggur fyrir að ef það yrði gert yrðu miklu minni líkur á að menn fari að vinna faglegar en áður og það er sannarlega það sem menn leggja upp með hér.

Það var athyglisvert, virðulegi forseti, og ég veit ekki hvort menn áttuðu sig á því en þegar gengið var á formann Vinstri grænna, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, þá talaði hann um að koma ætti á tilvísanakerfi. Hví skyldi það vera? Það skyldi þó ekki vera til þess að gæta aðhalds í kostnaði af kerfinu? Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá verðum við að gera það. Það er algerlega óþolandi að menn fullyrði hvað eftir annað að hér hafi verið einhver sveltistefna í heilbrigðismálum þegar allar úttektir sýna að það eru mjög fáar þjóðir ef nokkrar sem leggja meira til heilbrigðismála. (PHB: Og svona ung þjóð.) Það sem er sérstaklega athyglisvert er að við erum ung þjóð, eins og hv. þm. Pétur Blöndal kallaði fram í. Samt sem áður erum við í fjórða sæti þegar kemur að aukningu útgjalda til heilbrigðismála á síðustu 10 árum og það liggur fyrir að kostnaðaraukningin sem hefur lagst af fullum þunga á aðrar þjóðir á eftir að koma hjá okkur. Þetta er enginn ævintýraheimur, þetta er mannheimur, virðulegi forseti. Það liggur fyrir að menn þurfa að huga að því hvernig þetta er fjármagnað og það er ekkert í þessu frumvarpi eða stefnu ríkisstjórnarinnar sem kallar á það að menn tali með þeim hætti sem þeir gera hér og í rauninni þvert á móti.

Þetta frumvarp samanstendur af tvennu. Annars vegar af sjúkratryggingum í almennu tryggingunum og hins vegar þeim heimildum sem allir þingmenn greiddu atkvæði með í heilbrigðislögunum fyrir rétt tæpu ári. Það liggur alveg fyrir að ef mönnum finnst ráðherra hafa of miklar heimildir, þá eru menn löngu búnir að greiða atkvæði með því. Það er furðulegt þegar menn segja í fullri alvöru að þeir greiði atkvæði með lögum eftir því hvaða ráðherra eða ríkisstjórn er. Þetta er eitt það sérkennilegasta sem ég hef heyrt. (ÖJ: Greiddirðu ekki atkvæði með þessum samningum?) Virðulegi forseti. Vinstri grænir greiddu atkvæði með heilbrigðislögunum og þeir geta ekki sagt núna: Við meintum það ekki. Annaðhvort greiða menn atkvæði með lögum eða ekki. (ÖJ: Við greiddum atkvæði með ...) Það er til lítils að koma hér og segja: Já, virðulegi forseti, við greiddum atkvæði með lögunum, við vorum bara ekkert ofsalega mikið að meina það. Annaðhvort greiða menn atkvæði með lögum eða ekki. (ÖJ: Á að taka þennan ráðherra alvarlega?) Það liggur alveg fyrir … (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Ég hvet menn til að fletta því upp hverjir greiddu atkvæði með heilbrigðislögunum síðasta vor. (Gripið fram í.) Það er mjög einfalt að fletta því upp. (ÖJ: Vesalings ráðherrann.)

Það var hins vegar margt gott sem kom fram í þessari umræðu og það var athyglisvert að heyra hv. þm. Kristin H. Gunnarsson fara yfir málið. Hann sagði nokkurn veginn að frumvarpið væri afleiðing Jónínuskýrslunnar og tiltók þar sérstaklega tillögu nr. 5, að þetta væri bein afleiðing af henni. Ég held að það sé mjög mikið til í því hjá hv. þingmanni. Þeir sem hafa skoðað málið fram til þessa og þarf ekki Jónínuskýrsluna til, menn geta vísað í fyrri fagskýrslu í heilbrigðisráðuneytinu og þekki ég það ágætlega, að þá hafa menn verið samstiga um að þetta sé skynsamleg leið til að ná enn betri þjónustu en nú er. Ef menn eru að tala almennt um einkareksturinn, eins og t.d. útboð á þjónustu á stofnunum Landspítalans, þá held ég að ég fari rétt með það, virðulegi forseti, að það hafi verið gert síðan 1995. Svo sannarlega hefur ekki verið neinn aukinn kraftur í því núna á síðustu mánuðum. Það er ekkert sem bendir til þess. Þegar menn tala um að þeir hafi áhyggjur af heilsugæslunni, m.a. út af rekstrarvanda sem menn taka við, Landspítalinn m.a. út af rekstrarvanda, þá er algerlega fráleitt að menn séu á móti því að sest sé yfir þau mál og þau skoðuð. Raunar var Jónínunefndin sett með það nákvæmlega að markmiði að skoða sérstaklega Landspítalann og spítalann á Akureyri og sérstaklega hlutverk hans og það kemur fram í því erindisbréfi sem var lagt upp með þar. Nema hvað? Það er athyglisvert, og það er kannski ekki mikil samstaða um það innan stjórnarandstöðunnar, við skulum átta okkur á því, að t.d. hafa vinstri grænir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar talað um að það sé allt of mikil miðstýring í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Hvað sem því líður er aðalatriðið það að þetta frumvarp samanstendur af þessum tveimur þáttum sem ég nefndi, annars vegar köflum í heilbrigðislögunum sem voru samþykkt síðasta vor og það frumvarp var flutt eins og menn vita af ráðherra Framsóknarflokksins, og síðan sjúkratryggingakaflanum. Það eru engar efnisbreytingar á því heldur er fyrst og fremst verið að setja þetta upp með skipulegri og betri hætti en áður hefur verið. Þær breytingar sem eru til staðar eru raktar ágætlega og vissulega eru breytingar á þessu frumvarpi en ekki efnislega stórar. Eins og hér hefur komið fram eru menn að reyna að ná því takmarki sem lagt var upp með og lögð mikil áhersla á, bæði af þeim aðilum innan lands sem hafa fjallað um málið og svo erlendum aðilum, að reyna þegar kemur að því að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna og kaupa þjónustu af aðilum, sem svo sannarlega er gert núna, það er gert af samninganefnd heilbrigðisráðherra, af aðilum innan heilbrigðisráðuneytisins og hjá Tryggingastofnun, að það sé gert af eins faglegri og góðri þekkingu og mögulegt er. Geta menn ekki verið sammála um að það sé skynsamlegt? Það er nákvæmlega það sem er niðurstaða Jónínuskýrslunnar, nákvæmlega það sem lagt er upp með þar og nákvæmlega það sem lagt er upp með í nefnd sem sett var á laggirnar á árinu 1999 og hafði það að markmiði að styrkja kaupendahlutverk hins opinbera. Sú nefnd starfaði í mörg ár þótt hún hafi ekki skilað af sér.

Ég held að þegar við setjumst yfir þetta mál og skoðum það sé enginn vafi á að í þessum málaflokki er miklu fleira sem sameinar menn á þinginu og landsmenn alla en sundrar þeim. Í rauninni held ég að það sé ekki mjög margt sem sundrar íslenskum stjórnmálaöflum ef menn fara yfir þetta í rólegheitunum, a.m.k. tel ég og vil trúa að menn séu sammála um markmiðin.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Hún var að mörgu leyti upplýsandi og ég er tilbúinn til að svara þeim spurningum sem væntanlega verður beint til mín.