135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:36]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú ætla ég að gera eins og hæstv. ráðherra gerir yfirleitt, að gefa einkunnir og palladóma. Þetta er einhver sú ómálefnalegasta ræða sem ég hef hér heyrt. Ekki kemur eitt einasta svar við þeim spurningum sem ég bar fram.

Ég var ekki að gagnrýna það að hæstv. ráðherra skipaði nefndir. Ég var að spyrja hvernig yrði við verklok þessara nefnda — önnur átti nú að vera búin að skila samkvæmt áætlun — hvernig yrði með það farið, hvort þau verklok og skýrslur og tillögur yrðu kynntar heilbrigðisnefnd þingsins því manni virtist að þær mundu ekki koma fram fyrr en þingið er farið heim. Ég fékk engin svör við þessu heldur einhverja allt aðra plötu (Gripið fram í.) og hana heldur bilaða.

Það hefur verið talað um að ég hafi tekið stórt upp í mig um afstöðu þjóðarinnar með því að ég hef verið að vitna hér í könnun á viðhorfi til heilbrigðisþjónustunnar. Ég vil, þannig að það fari ekki ósvarað úr þessum sal, taka fram að þetta var landskönnun sem unnin var á vegum Háskóla Íslands, á vegum landlæknisembættisins og á vegum Lýðheilsustöðvar. Þetta var þess vegna fullkomlega marktæk könnun sem Rúnar Vilhjálmsson prófessor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands stýrði.

Að lokum, frú forseti, því ekki hef ég tækifæri til þess að koma oftar upp og ræða þetta mál þá verð ég að segja að þegar spurt er í lokin hvert sé brýnasta verkefnið í heilbrigðismálum þessarar þjóðar þá er það eftir þessa umræðu í dag í mínum huga eitt og það er að koma Sjálfstæðisflokknum út úr heilbrigðisráðuneytinu.