135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú svolítið erfitt að átta sig á stefnu Sjálfstæðisflokksins vegna þess að annars vegar er fullyrt að það eigi að greiða að fullu fyrir heilbrigðisþjónustu og á hinn bóginn tala ýmsir talsmenn flokksins fyrir því að ofan á grunninn sem ríkið og samfélagið tryggir komi heimildir til þess að setja sérstakt markaðsálag sem þá fari inn á samkeppnismarkað. Á þessa lund hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal til dæmis talað. Þetta er nú bara staðreynd og er ég þar að vitna í umræðu sem ég hef átt við hann á formlegum vettvangi þingsins.

Hæstv. forseti segir að Vinstri græn séu ekki sjálfum sér samkvæm. (Gripið fram í: Hæstv. ráðherra.) Hvað sagði ég? (Gripið fram í: Hæstv. forseti. ) Hæstv. heilbrigðisráðherra — ég biðst forláts — að við séum ekki sjálfum okkur samkvæm. Við höfum í reynd stutt stefnu sem við erum að gagnrýna hér vegna þess að við höfðum greitt atkvæði með heilbrigðislögunum á sínum tíma, í mars á síðasta ári. Ég er búinn að fara mjög rækilega yfir það hvernig við greiddum atkvæði sérstaklega gegn þeim greinum þess frumvarps þar sem meðal annars var kveðið á um heimildarákvæði til ráðherra til útboða og höfum gert rækilega grein fyrir afstöðu okkar hvað þetta snertir.

Þá er spurningin: Erum við að gera ríkisstjórninni og hæstv. ráðherra upp skoðanir eins og hann telur okkur gera, að við séum að gefa til kynna að verið sé að búa til eitthvað annað en raunverulega vaki fyrir mönnum? Við erum að segja að hægt og bítandi sé verið að skapa grundvöll fyrir markaðsvæðingu kerfisins og þetta sé einn hlekkur, (Forseti hringir.) einn liður, skref á þessari vegferð. Það erum við að segja og að þar, á þeim vettvangi, verði síðan framfylgt (Forseti hringir.) yfirlýstri stefnu Sjálfstæðisflokksins að færa heilbrigðiskerfið í ríkari mæli en nú er inn á (Forseti hringir.) markaðstorgið.