135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

uppbót á eftirlaun.

547. mál
[19:01]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um uppbót á eftirlaun og mér liggur við að segja loksins, loksins, frú forseti. Loksins, loksins er farið að huga að þeim sem verst eru settir, þeim sem eru með svokallaðar strípaðar bætur Tryggingastofnunar og alltaf er verið að vísa í en enginn hefur tekið á. Loksins, loksins, frú forseti.

Það er ákveðinn hópur fólks í þjóðfélaginu sem ekki á rétt í lífeyrissjóði. Það eru í fyrsta lagi heimavinnandi konur sem fóru aldrei út á vinnumarkaðinn vegna þjóðfélagsaðstæðna og eru orðnar háaldraðar. Það er orðið mjög sjaldgæft nú orðið að konur séu heimavinnandi alla ævina og séu aldrei á vinnumarkaði. Þær eru háaldraðar og fá ekkert úr lífeyrissjóði. Það eru hins vegar sjálfstæðir atvinnurekendur sem borguðu fyrir starfsfólkið sitt en „gleymdu“ að borga fyrir sig og fóru þannig á svig við lögin. Oft var reksturinn ekki svo beysinn að hann stæði undir því og þá var þetta sparað. Svo eru það hreinlega þeir sem svikust um að greiða í lífeyrissjóð. Þegar ég var formaður Landssambands lífeyrissjóða var það reiknað út að það voru 40 þúsund manns sem áttu að greiða í lífeyrissjóð á þeim tíma en gerðu það ekki af því að það voru engin viðurlög við lögunum. Menn létu bara borga sér út 6% og borguðu ekki 4%. Af hverju er verið að hjálpa því fólki? Það er í vandræðum. Það fær ekki lífeyri úr lífeyrissjóði, það borgar ekki í lífeyrissjóð og ef það hefur gert eitthvað annað við iðgjaldið og fjárfest þá hefur það með fjármagnstekjur þannig að það skerðir þessar bætur.

Við hjálpum því fólki sem fær engar tekjur, hvorki fjármagnstekjur né annað, ekki neitt. Það má segja að við séum líka að borga aðgerðir fyrir þá sem fá krabbamein í lungun vegna reykinga. Við refsum mönnum ekkert fyrir að hafa gert eitthvað sem var óskynsamlegt. Við erum sem sagt loksins núna að taka á kjörum þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu, þ.e. ellilífeyrisþegum sem eru með svokallaða strípaða taxta. Þeir eru nokkuð margir. Í frumvarpinu kemur fram að þeir eru 2.600 sem ekki fá neitt og samtals munu 5 þúsund einstaklingar fá einhverja uppbót, þ.e. 5 þúsund einstaklingar sem eru annaðhvort með ekki neitt eða undir 25 þús. kr. í lífeyrissjóði.

Eftir að þessi breyting hefur átt sér stað hækka lægstu tekjur aldraðs manns sem býr einn. Í dag eru þær 135.928 kr. eða 136 þús. kr., en þær hækka upp í 148.516 fyrir skatt. Þá er ég að tala um að teknu tilliti til skerðingar Tryggingastofnunar. Við getum þá sagt og tilkynnt það út um víðan heim, í Skandinavíu og víðar, að það er enginn ellilífeyrisþegi sem býr einn með minna en 149 þús. kr. á Íslandi í bætur. Ég hygg að þetta sé með því hærra ef ekki það hæsta sem gerist í Skandinavíu. Það getur vel verið að gengisfall krónunnar hafi skert þetta eitthvað síðustu daga.

Hjón eru núna í dag með 111.072 fyrir skatt, hvort um sig, algert lágmark. Þá hafa þau engar tekjur og ekkert úr lífeyrissjóði. Við þessa breytingu hækkar sú upphæð upp í 126.485 kr., sem sagt um 15 þús. kr., þ.e. um 14%. Eru hjónin þá samanlagt með 253 þús. kr. ef þau hafa ekkert úr lífeyrissjóði. Þetta er algert lágmark, það lægsta sem nokkur hjón fá. Við erum þá með þessari aðgerð búin að ná því að hækka það. (Gripið fram í: Svo er skattur ofan á það.) Svo kemur skattur ofan á það, það er eins og með lægstu laun í þjóðfélaginu og annað slíkt. Þessir hópar hækka báðir, annar hækkar um 12.600, þ.e. þeir sem búa einir. Hjónin, hvort um sig hækka um 15.400. Þegar til viðbótar kemur sú hækkun sem varð um áramótin og sú hækkun sem varð við kjarasamningana þá eru báðir hóparnir farnir að fá nokkuð meira en 18 þús. kr. sem talað er um í kjarasamningi sem algert lágmark. Þeir sem eru með algert lágmark og ekki neinar tekjur neins staðar ná þessum 18 þús. kalli og vel það, nokkuð umfram það.

Hér er talað um að skerða þessar bætur vegna fjármagnstekna og tekna annars staðar og vegna tekna úr lífeyrissjóði o.s.frv. enda er hugsunin sú, frú forseti, að bæta þeim sem eru alverst settir þannig að þeir fái a.m.k. þetta. Sú leið að fara yfir lífeyrissjóðina er nokkuð snjöll því að hún gerir það að verkum að athygli manna beinist að lífeyrissjóðunum og það er jákvætt.

Það er lítið um þetta frumvarp annað að segja. Verið er að taka á kjörum þeirra sem verst eru settir. Sá hópur hefur haft því miður frekar veika málsvara, bæði hér á þingi og annars staðar. Menn eru alltaf að gera kröfur um að lækka skerðingar sem kemur þeim til góða sem eru með hærri tekjur. Sumir eru jafnvel að tala um að skattleggja lífeyri með fjármagnstekjum sem kæmi þeim náttúrulega afskaplega illa sem hafa engan lífeyri. En hátekjulífeyrisþegum kæmi það mjög vel fyrir utan að það er algerlega órökrétt sem hefur reyndar verið rætt mörgum sinnum og ég hef rætt úr þessum stóli. En ég fagna þessu frumvarpi og mér finnst það vera mjög gott og það leysir vanda þess hóps sem kannski er verst settur. Það eru aldraðar konur sem aldrei voru á vinnumarkaði af þjóðfélagsástæðum og þeir sem af einhverjum ástæðum borguðu aldrei í lífeyrissjóð þó að þeir hefðu átt að gera það. Svo eru það að sjálfsögðu fatlaðir sem aldrei eru á vinnumarkaði.