135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[19:20]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um aukna samvinnu milli vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Karl V. Matthíasson, formann Vestnorræna ráðsins og Íslandsdeildar þess, og Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins. Umsagnir bárust um málið frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Hafrannsóknastofnuninni, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Háskólanum á Akureyri, auk þess sem álit barst frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um að koma á reglubundinni samvinnu milli landanna um stofnstærðarrannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra, frekari samræmingu rannsóknaraðferða og skilvirkari upplýsingagjöf um útbreiðslu fiskstofna og sjávarspendýra.

Með ályktun nr. 5/2007 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 23. ágúst 2007 samþykkti ráðið að beina þessari áskorun til ríkisstjórna Íslands, Færeyja og Grænlands.

Nefndin telur aukið samstarf á sviði fiskirannsókna vestnorrænu þjóðanna æskilegt þar sem löndin eiga afkomu sína að miklu leyti undir sjávarútvegi og leggur til að tillagan verði samþykkt.

Bjarni Benediktsson og Guðfinna S. Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið rita Árni Páll Árnason, varaformaður, Steingrímur J. Sigfússon, Ásta R. Jóhannesdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Kristinn H. Gunnarsson og Björk Guðjónsdóttir.