135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[19:48]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka fyrir ágætar umræður sem hér hafa verið og reyndar stórfróðlegar fyrir alla þá sem hafa áhuga á hafrannsóknum og lífríki hafsins. Ég get auðvitað ekki með nokkrum hætti státað af viðlíka þekkingu eins og fram hefur komið í þessum umræðum, m.a. hjá hv. síðasta ræðumanni.

En það leiðir hugann að því og minnir okkur á að eitt af þeim vandamálum sem uppi eru hvað varðar hafrannsóknir á Íslandi er einmitt að samtvinna þekkingu vísindamannanna sem m.a. og kannski fyrst og fremst starfa hjá Hafrannsóknastofnun og hins vegar þekkingu veiðimanna, fiskimannanna, sem eyða allri sinni ævi við það að eltast við fisk og veiða fisk. Lesa í náttúruna og skilja hana og átta sig á samhengi hlutanna. Það er einmitt sú þekking sem vísindamennirnir eru að reyna að grípa utan um, reyna að setja niður í einhvers konar hugmyndakerfi. En þetta tvennt er þegar saman er virt eitt og hið sama, þ.e. þekking veiðimannsins og þekking vísindamannsins. Þetta er sama þekkingin. Spurningin er hvernig menn geta nýtt sér báða hlutina þannig að við getum náð betri árangri við hafrannsóknir.

Það er reyndar svo að sennilega er engin ein vísindagrein jafnmikilvæg fyrir okkur Íslendinga og hafrannsóknir. Þá er sama hvort á það er horft í þjóðhagslegu tilliti eða út frá sjónarmiðum hinna dreifðu byggða. Hvað varðar hið þjóðhagslega tillit er ljóst að eftir því sem við getum veitt meira, eftir því sem við getum flutt út meira af sjávarafurðum því betur gengur okkur að afla okkur gjaldeyris og efla þannig lífskjör í landinu. Það er jafnljóst og við höfum séð það á undanförnum árum að þegar dregur úr veiðinni, þegar dregur úr þorskveiðinni eða þegar illa gengur að veiða loðnu segir það mjög til sín fyrir hinar dreifðu byggðir, reyndar ekki bara hinar dreifðu byggðir heldur samfélagið allt. Við höfum séð það á undanförnum árum sérstaklega út af þorskveiðinni að fjarað hefur víða undan í sjávarbyggðunum um landið, einkanlega í hinum minni byggðum, og það er trú mín að við munum aldrei ná almennilega utan um byggðamál á Íslandi fyrr en okkur tekst og auðnast að auka þorskveiðina þannig að við skjótum undir atvinnuvegina í þessum byggðum styrkari stoðum.

En vandinn við hafrannsóknir er jú sá að þetta eru í fyrsta lagi alveg gríðarlega flókin vísindi. Bara það eitt að reyna að ná saman í líkan, eitthvert heildstætt líkan samspili hinna lífrænu þátta í hafinu, samspili tegundanna og samspili hitastigs við afkomu tegunda o.s.frv. er alveg gríðarlega flókið viðfangsefni.

Þetta er ekki mjög stór fræðigrein á alþjóðavísu. Það eru ekki mjög margir sem stunda hana miðað við ýmsar aðrar fræðigreinar, t.d. eins og hagfræði sem einmitt byggir á því að menn reyni að „módelera“ eða búa til líkön til þess að lýsa hinum hagræna raunveruleika og spá fyrir um óorðna tíð. Sama eru menn að reyna að gera hvað varðar hafið, að reyna að búa til líkön og setja inn í þau gögn og spá fyrir um það sem mun gerast á næstu missirum og árum, þannig að eitt er það flækjustig sem snýr að sjálfum fræðunum.

Annað gerir þetta enn þá erfiðara og inn á það kom hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson að mínu mati mjög vel og benti einmitt á það hvaða gögn það eru sem við setjum inn í þessi líkön sem skipta svo miklu máli.

Því ber að fagna að sjávarútvegsráðherra beitti sér fyrir því að setja meiri peninga til hafrannsókna, sérstaklega til að fjölga togstöðum. Ef ég man rétt voru settar einar 50 millj. kr. til hafrannsókna sérstaklega til að vinna gegn þessum vanda. En ég er sammála hv. þingmanni að það er akkúrat þarna sem hægt er að setja puttann á einmitt einn mesta vandann sem fylgir þessum hafrannsóknum.

Síðan höfum við Íslendingar farið þá leið, og það má auðvitað mjög vel skilja þá ákvörðun sem tekin var, að við höfum hafrannsóknir okkar meira og minna í einni ríkisrekinni stofnun. Ég hef áður úr þessum ræðustóli lýst þeirri skoðun minni hvaða vandamál geta fylgt því að hafa ríkisrekin vísindi og alveg sérstaklega vísindi sem eru jafnóviss í eðli sínu og hafrannsóknir.

Hafrannsóknir kalla ýmist á að það sé umræða, tekist sé á af vísindalegum grunni milli jafningja, þ.e. milli vísindalegra stofnana eða vísindamanna sem eru fullburðugir til að eiga vísindalegar samræður til þess að leiða einmitt fram þekkinguna til að festa sig ekki í einhvers konar módelum sem menn síðan verja, ekki til að leita að sannleikanum heldur til þess einfaldlega að verja þá þekkingu sem menn telja sig vera einir handhafa.

Nú má ekki skilja orð mín svo að ég telji að það sé endilega niðurstaðan með Hafrannsóknastofnun. Ég hef bara forsendur til þess að meta það. En ég horfi á það umhverfi sem stofnuninni er búið og það umhverfi sem við höfum búið íslenskum hafrannsóknum. Því er ekki hægt annað en að segja að ástæða sé til að ætla það að sú hætta geti verið uppi.

Því hef ég lagt það til áður og mælt fyrir því að við reynum að virkja betur háskólasamfélagið á Íslandi til þess að við fáum betra og öflugra rannsóknarumhverfi fyrir hafrannsóknir sem ég tel og er sannfærður um að séu einhver mikilvægustu vísindarannsóknir sem Íslendingar geta stundað.

Hvað varðar einmitt það vandamál að ná saman annars vegar þekkingunni sem við höfum á lífríki hafsins og hins vegar hvernig við skipuleggjum fiskveiðarnar verð ég að segja að því miður fór það svo árum saman að vegna deilna um eignarhaldið á auðlindinni, vegna deilna um hið svokallaða auðlindagjald þá skipuðu menn sér í skotgrafir. Öðrum megin voru þeir sem sögðu: Við viljum kvótakerfi og vísindalegar fiskveiðar byggðar á niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar og hinum megin voru þeir flokkaðir allir sem voru þá á móti vísindunum og skynsamlegum fiskveiðistjórnaraðferðum.

Ég er þeirrar skoðunar og er eindreginn talsmaður þess að við byggjum fiskveiðar okkar á séreignarréttinum. En ég tel ekki þar með sagt að við séum búin að finna upp hið eina og endanlega fiskveiðistjórnarkerfi. Og eitt af þeim stóru verkefnum sem við stöndum frammi fyrir er að ná að þætta betur saman þekkingu okkar á hafinu og hvernig best er að haga fiskveiðunum og hnýta það saman við fiskveiðistjórnina sjálfa.

Það er alveg rétt sem komið hefur fram í umræðunum að auðvitað hljótum við að velta því fyrir okkur hvaða afleiðingar það hefur ef það eru fleiri en einn og fleiri en tveir þorskstofnar við landið. Getum við brugðist við því? Þurfum við að bregðast við því? Við hljótum líka að velta því fyrir okkur hvaða afleiðingar það hefur t.d. þegar við ákveðum að veiða meira eða minna af loðnu. Hvaða afleiðingar hefur það fyrir efnahagslega afkomu, t.d. þeirra sem byggja sitt á þorskveiðum? Hvaða stöðu höfum við til að ákveða með stjórnvaldsaðgerðum hvaða stofnar eiga að vaxa og hverjir ekki? Þetta eru allt stjórnvaldsaðgerðir sem hafa gríðarleg áhrif á afkomu þeirra sem stunda fiskveiðar. Allt þetta skiptir miklu máli að mínu mati.

Þess vegna er ég mjög hlynntur þeirri tillögu sem hér er til umræðu um aukið samstarf milli Íslands, Grænlands og Færeyja vegna þess að ég tel að það sé þáttur í því að auka þekkingu okkar, m.a. með því að geta borið betur saman okkar eigin raunveruleika og okkar niðurstöður við það sem aðrir eru að gera. Vegna þess einmitt að það eru önnur fiskveiðistjórnarkerfi sem liggja til grundvallar og við getum þá betur borið saman árangurinn af þeim kerfum og þann árangur sem við náum í okkar eigin fiskveiðum. Þetta skiptir máli.

Ég legg einnig áherslu á það þegar við horfum til þessara þátta að við reynum að gera þetta þannig að það sé ekki bara í gegnum Hafrannsóknastofnun sem það samstarf fari fram heldur líka að reyna að virkja háskólasamfélagið, hvort sem það er Háskóli Íslands eða Háskólinn á Akureyri eða aðrar slíkar stofnanir sem gætu komið að því samstarfi. Ég held að það sé mikilvægt til að breikka þekkingargrundvöllinn í hafrannsóknum og raunverulega vinna okkur þar með hægt og rólega frá þeirri stöðu að það sé bara einn ríkisrekinn aðili sem sé handhafi allrar þekkingar hér á hafrannsóknum.

Það má svo með sanni segja að það sé skiljanlegt að menn hafi áhyggjur af því og hafi uppi þær skoðanir að sú niðurstaða sem kemur úr slíkri stofnun hljóti í það minnsta að vera umdeilanleg þó ekki væri nema bara vegna þess umhverfis sem stofnunin býr við. Það kastar ekki með nokkrum hætti rýrð á störf þeirra vísindamanna sem þar starfa. Ég er þess fullviss að þeir vinna af miklum heilindum og af bestu getu.

En á meðan við búum ekki til það umhverfi sem þeir þurfa til þess að geta sinnt vísindum sínum með þeim hætti sem ég tel að þurfi að vera þá er eðlilegt að uppi séu þær raddir sem svo gjarnan heyrast að eitthvað sé að í þeirri ráðgjöf sem við njótum núna frá Hafrannsóknastofnun.