135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[20:00]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar líkan og líkanasmíð í hafrannsóknum þá er það nú einu sinni svo að til þess að geta náð utan um þá þekkingu sem er um að ræða, til þess að vísindamenn geti unnið sína vinnu — og þeir gera það jú þannig — að þá safna þeir saman allri þeirri þekkingu sem þeir komast yfir og leggja mat á til dæmis samspil tegunda, samspil hitastigs og viðkomu tegundanna og svo framvegis. Síðan reyna menn að koma allri þessari þekkingu saman í eitthvert heildarkerfi. Og það sem gerist síðan er að menn reyna þá að kanna hvernig það líkan eða sú hugmynd öllu heldur passar við raunveruleikann. Það er nú það sem gert er hvað varðar líkön. Þá fá menn eitthvert mat á það og í flestum vísindagreinum þróast það hægt og rólega í þá áttina að menn bæta sig jafnt og þétt og sjá betur og betur hvernig líkönin passa við raunveruleikann og ná betri árangri þannig.

En til þess að slíkt geti gerst þá þarf að fara fram mjög eindregin og opin vísindaleg umræða, gagnrýnin vísindaleg umræða. Og það er það sem ég hef verið að hafa áhyggjur af í umhverfi hafrannsókna á Íslandi að það fari ekki fram nægilega opin og nægilega gagnrýnin vísindaleg umræða.

Hvað varðar síðan erlent samstarf þá er rétt að muna eftir því að íslenskir vísindamenn eru auðvitað í heilmiklu samstarfi við erlenda kollega sína innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins og víðar við háskóla erlendis þannig að það er ekki svo að þeir séu þá með þessari tillögu að komast í fyrsta sinn í tæri við erlenda vísindamenn. Það er langt í frá.

Ég held að það sé of stuttur tími til að fara að ræða hér grunninn að séreignarréttarkerfi og almennt opnum aðgangi að fiskveiðiauðlindinni. En það er þó alla vega mín skoðun að reynslan sýni okkur að einhver erfiðasta leiðin til að stjórna fiskveiðum sé að hafa opinn aðgang. Ég held að (Forseti hringir.) slík nálgun mundi aldrei ganga upp.