135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[20:02]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Sóknarstýring, sóknardagar mæla hvort fiskiríið er meira eða minna frá degi til dags. Þeir mæla frá viku til viku, frá mánuði til mánaðar, frá ári til árs. Sóknarstýring eins og Færeyingar nota — þeir kalla það reyndar dagakerfi — er miklu betri gagnagrunnur til þess að byggja á og þegar skoðað er síðan stærðarhlutfall á fiski, hann aldursgreindur og annað í þeim dúr þá fást betri og meiri upplýsingar en við höfum nokkurn tímann hérna með svokölluðu togararalli okkar. Vísitölumælingin á þorskinum byggir aðallega á togararalli og að fjölga einhverjum togum til eða frá. Það breytir ekki neinu. Það þarf að taka öll veiðarfæri inn í einhvers konar rall og mæla afla á þeim á svipuðum tíma miðað við strauma og annað þess háttar sem ekki er gert í togararalli.

Aflamarki fylgir brottkast. Þegar einhver á ákveðið magn í sjónum af fiski þá vill hann fá sem mest verðmæti fyrir það. Það er ekkert óeðlilegt. En þá fara líka menn að freistast til þess að henda fiski í sjóinn, henda verðmætum og það má kannski segja að það sé eitt af stóru vandamálunum við þennan séreignarrétt sem hv. þm. Illugi Gunnarsson er að lofa. En það er nefnilega gallinn. Svo er um þennan séreignarrétt sem reyndar íslenskir útgerðarmenn hafa sem betur fer ekki nema á nýtingarréttinum. Það stendur alveg skýrt í lögum um stjórn fiskveiða að fiskurinn sé sameign þjóðarinnar. En menn eru hér að leika sér að því að braska með nýtingarréttinn, leigja hann, selja hann, veðsetja hann. Þess vegna vonar maður (Forseti hringir.) að betri upplýsingar og betri vinnubrögð verði tekin upp í (Forseti hringir.) hafrannsóknum með samstarfi við aðrar þjóðir.