135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[20:20]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Illuga Gunnarssonar áðan um gæði á fiski, eftir að kvótakerfið var tekið upp byggði það töluvert á því að stuttu eftir að kvótakerfið kom á eða á sama tíma byrjuðu menn að flytja fisk út í gámum. Það var mjög vel gengið frá þeim fiski, hann var vel ísaður í kör og vel þrifinn og hreinsaður. Síðan 1986 eru komnir fiskmarkaðir á Íslandi og þessir fiskmarkaðir leiddu það auðvitað af sér að umgengni um fiskinn lagaðist, bæði gámaútflutningurinn og íslenskir fiskmarkaðir leiddu það af sér að umgengni um fisk var betri en lélegri fiski var oft kastað fyrir borð. Það er í þessu svokallaða aflamarkskerfi sem við höfum búið við frá 1984 og það leiddi af sér auðvitað að að meðaltali var fiskurinn skárri. Bæði smáfiski og ódýrari fiski og ég tala nú ekki um tveggja og þriggja nátta netafiski var hent, sem var alltaf hirtur áður.

Við eigum fullt af vísindamönnum sem vita mikið um hafið og fiskana í hafinu. Skipstjórnarmenn eru þar að mínu mati fremstir í flokki, menn sem eru allt upp í 300 daga á sjó á ári 30, 40 ár. Þeir hljóta að vita mikið um fiskifræði þó að þeir séu ekki með próf í fiskifræði sem slíkir en þeir eru með atvinnuskírteini, þeir hafa verið ráðnir aftur og aftur og þeir hafa fengið skip og verið í vinnu við þetta af því að þeir hafa verið kunnugir, þekkt aðstæður í hafinu, getað nýtt sér þær til að veiða fisk og það hefur verið þeirra gæfa og velferð þeirra hefur byggst á því hvað þeir þekktu vel til aðstæðna.

Dagakerfi er auðvitað skárri kostur en aflamarkskerfi og jafnvel þó að séreign væri á dagakerfi væri skárra að vera með dagakerfi en aflamarkskerfi í séreign. Hvorugu ætla ég að mæla með en það væri þó a.m.k. komið í veg yfir brottkast og ýmsar aðrar hvatir eins og að landa fiski fram hjá eða falsa tegundir á fiski og annað í þeim dúr á hafnarvogum. Þótt það væri séreign á dagakerfinu væri það skárra kerfi m.a. til þess að við vissum hvað mikið væri drepið af fiski því að það er enginn hvati í dagakerfi til að henda fiski, koma ekki með allt sem maður drepur í land.

Það vakti auðvitað athygli í vetur þegar loðnutorfan, loðnukökkurinn var 11 mílur austan við Ingólfshöfða þá mældu tvö skip torfuna og komust að því að það væru um 330 þús. tonn í torfunni. Þá var Hafrannsóknastofnun að fara í frí og fór í helgarfrí með rannsóknarskip sitt sem var að fylgjast með loðnunni. Sex dögum síðar mættu þeir aftur á miðin og mældu þá sömu torfu að hún væri orðin 470 þús. tonn. Þeir töldu að allt fram yfir 400 þús. tonn væri óhætt að veiða og þeir leyfðu að veiða 70 þús. tonn til að byrja með. Síðan urðu þeir varir við viðbótarloðnu og þar af leiðandi bættu þeir aðeins við kvótann.

Það má taka undir það hjá hv. þm. Árna Johnsen að við eigum marga frábæra vísindamenn, ekki bara með próf í fiskifræði, við eigum líka fiskifræðinga sem hafa verið á allt annarri skoðun en fiskifræðingarnir á Hafrannsóknastofnun. Ég nefni t.d. Jón Kristjánsson fiskifræðing sem hefur verið ráðgjafi m.a. í Færeyjum varðandi hafrannsóknir þar og ég ætla nú ekki að gleyma öllum skipstjórunum, félögum mínum gegnum tíðina sem hafa mikla þekkingu og reynslu af þessu. Þetta er auðvitað nauðsynlegt að ræða og maður vonast til þess að það verði faglegri vinnubrögð í hafrannsóknum með samstarfi við útlendingana.

Í þessu frumvarpi er talað um að auka samstarf við útlendinga, sérstaklega á norðurslóðum, þ.e. Grænlandshafinu, við Grænland, Ísland og Færeyjar. Þetta er það svæði sem okkar stofnar svamla um á og þorskur eða aðrar tegundir, grálúða, hvaða tegundir sem það eru virða ekkert strik í sjókorti. Þær synda á milli landa og eru ekki að pæla í því hvort þær eru Grænlandsmegin eða Íslandsmegin eða Færeyjamegin eða Íslandsmegin að austanverður eða jafnvel austur í hafi, jafnvel austur í Barentshafi. Við glímum því við að fiskarnir okkar synda í allar áttir og við þurfum ekki að ímynda okkur að Íslandsmið séu fiskabúr sem sé varið miðað við 200 mílur, það er bara ekki svoleiðis. En þetta er einmitt það sem við glímum við hjá misvitrum vísindamönnum, þeir halda því jafnvel fram að þetta sé með þeim hætti að þetta sé íslenskur fiskur, alinn upp við Ísland og við eigum hann og hann fari ekki neitt. Þetta eru bara hlutir sem ekki ganga upp í fiskifræðinni.

Ég minntist hér áðan á loðnu og þorsk. Það þótti sjálfsagt að bæta við loðnukvótann eftir sex daga þegar þeir á Árna Friðrikssyni voru búnir að fara í helgarfrí. En við gleymdum því og hæstv. sjávarútvegsráðherra sá ekki ástæðu til að endurskoða þorskinn eða þorskaflann sem var í sögulegu hámarki í vetur á öllum slóðum hringinn í kringum landið og hann hélt sig við það að bæta ekki við þorskkvótann þó að það hefði verið full ástæða til þess, í fyrsta lagi líffræðilegar ástæður. Það má segja að það sé það góða við Hafrannsóknastofnun í gegnum tíðina að hún hefur ævinlega vanmetið þorskstofninn einan og sér en stundum ofmetið aðra stofna eins og ýsustofninn og aðra stofna sem þeir hafa verið að gefa út mikinn kvóta í sem hefur jafnvel ekki náðst þrátt fyrir mikla sókn í viðkomandi stofna.

Ég segi enn og aftur: Það er full ástæða til þess að við fögnum þessari þingsályktunartillögu sem slíkri og auðvitað hvetjum við okkar menn til þess að vera sjálfstæðari. Við tökum líka eftir því að það þarf enginn að segja mér að vísindamenn á Hafrannsóknastofnun Íslands séu alltaf sammála. Við tökum eftir íslenskum hagfræðingum sem eru að rífast um hvort það eigi að hækka vexti eða lækka vexti hjá Seðlabankanum, stýrivexti, þegar á að ná niður verðbólgu. Við tökum eftir því að lögfræðingar rífast um hvað sé rétt og hvað sé rangt að gera. Þetta horfum við upp á og þetta horfum við upp á innan háskóla og ýmissa stofnana að menn eru ekki á sama máli og þeir koma jafnvel fram og segja hvaða skoðanir þeir hafa, annar segir já og hinn segir nei.

Þegar kemur að Hafrannsóknastofnun Íslands þá virðast aldrei vera skiptar skoðanir þar innan dyra og þar virðast allir vera mótaðir, bakaðir í sama mótinu og allir með eins hugsun, sömu hugsun eða eins og sumir hafa haldið fram og ég held með réttu, að það sé hreinlega skoðanakúgun á Hafrannsóknastofnun. Það sé bara eitt álit látið út og aðrir sem ætli sér að hafa einhverjar aðrar skoðanir eða tala fyrir öðrum málum eru einfaldlega þaggaðir niður og þurfa jafnvel að fá sér vinnu annars staðar.

Ég fagna þessu þingmáli eftir sem áður og vonast til þess að það muni leiða af sér að í framtíðinni fáum við öruggari, betri og meiri þekkingu og öruggari og faglegri vinnubrögð af vísindamönnum okkar. Og auðvitað þarf að taka tillit til sjónarmiða skipstjóra á íslenska flotanum og þar er gríðarlega mikil þekking og reynsla til staðar.