135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[20:36]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðustu orð hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar vil ég segja: Allir höfum við sama markmið. Við viljum gera betur, við viljum ná meiri árangri, afla meiri þekkingar til þess að geta veitt meiri fisk og haft meiri og betri afkomu. Við höfum haft þetta fiskveiðistjórnarkerfi í 24 ár, eða réttara sagt frá 1984, aflamarkskerfi. Þegar við tókum aflamarkskerfið upp veiddum við u.þ.b. 270 þús. tonn af þorski og þá var okkur sagt að með aflamarkskerfinu næðum við að byggja upp þorskstofninn þannig að hægt væri að veiða 350–450 þús. tonn, ef við færum að tillögum fiskifræðinga í þrjú ár.

Staðan er sú að á þessu ári ætlum við að veiða 130 þús. tonn, meira en helmingi minna en þegar útlitið var hvað svartast. Það átti að byggja þetta allt upp á vísindafræðilegum forsendum — ef við gerðum eins og Hafrannsóknastofnun legði til yrðum við farnir að veiða þetta mikið eftir tvö til þrjú ár. Raunin er allt önnur og þess vegna sárnar manni að vita af stjórnmálamönnum sem halda áfram að verja þetta vonda kerfi, allt á þeirri forsendu að ákveðnir aðilar fengu eignarhald á nýtingarréttinum, þeir geta veðsett hann, leigt hann, selt hann. Það er málið. Þeir eru ekki að berjast fyrir þessu nema vegna þess að þeir hafa þennan nýtingarrétt og þeir telja sig eiga fiskinn í sjónum, kvótann. Á þeirri forsendu berjast þeir eins og þeir geta við að halda óbreyttu kerfi þó að þeir sjái það sjálfir og viðurkenni undir fjögur augu að þetta sé tóm vitleysa, fiskveiðistjórnin sé í klessu. En eignarhaldið vegur mest. (Forseti hringir.) Fiskveiðiheimildir á Íslandi eru þúsund milljarða virði, ókeypis, (Forseti hringir.) afhentar ókeypis.