135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[20:38]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort við náum að tæma þennan þátt málsins í stuttu andsvari en það er allt hárrétt sem hv. þingmaður segir varðandi það hvað við veiddum áður en við hófum að stjórna veiðunum á þann hátt sem gert er í dag og hvað við veiðum í dag.

Við höfum rætt hér um hafrannsóknir og ýmsir halda því fram að hefðum við ekki heft veiðarnar væri staðan mun verri en hún er í dag. Aðrir segja, til að mynda sjómenn, að aldrei hafi verið meiri fiskur í sjónum en einmitt núna, varla sé hægt að bleyta veiðarfæri nema fylla þau af fiski, varla hægt að dýfa humartrolli niður vegna þess hversu mikið er af þorski. Ef þetta er allt saman rétt er sjórinn fullur af fiski, þá er staðreyndin sú að kerfið hefur virkað.

Það breytir ekki hinu að umræður á þessum grunni eru alltaf í tilgátuformi vegna þess að við verjum ekki nægilegu fjármagni í hafrannsóknir, við komum ekki upp samkeppni í hafrannsóknum og geysilega lítið traust er á milli vísindamanna og sjómanna. Úr þessu verðum við að greiða, burt séð frá því hvaða viðhorf við höfum til þess hvernig stjórna eigi fiskveiðunum.