135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[20:40]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Svokallaðar vísitölurannsóknir á þorski eru vitlaust framkvæmdar. Við byggjum á einni tegund veiðarfæra sem heitir troll. Við erum með föst tog í 24 ár að stærstum hluta, yfir 90% eru föst tog frá ári til árs. Aðstæður hafa breyst, skilyrði í sjónum hafa breyst en við höldum samt áfram að nota þetta. Ef nota á veiðarfæri sem mælingu eða aðferð til að telja fiskana í sjónum verðum við að nota öll veiðarfæri sem notuð eru til að nýta fiskimiðin og nota það með þeim hætti sem einhvers konar stikkprufu.

Auðvitað er besta mælingin sóknarstýringarkerfi þar sem við sjáum hvort við veiðum meira í dag en í gær eða minna þessa vikuna, þennan mánuðinn, þetta árið. Þá fáum við nákvæmari mælingu á því hvernig ástandið er á fiskimiðunum. Við vitum hvað við fáum í hverjum róðri, að meðaltali hvað við fáum á hverjum mánuði og annað í þeim dúr. Þetta er nefnilega þannig, þetta er ekkert flókið.

Eins og ég kom inn á áðan snýst þetta alltaf um það að verja þessa þúsund milljarða sem voru afhentir ókeypis, það er mergur málsins að við erum fastir í því. Þeir sem eru handhafar þessara ókeypis veiðiheimilda og eru handhafar þessara þúsund milljarða vilja ekki breytingar. Það er alveg sama hvaða tillögur komið væri með þeir vilja ekki breyta. Þeir eru alltaf að hugsa um að kvótinn sé þetta mikils virði og hann sé lífeyrissjóðurinn þeirra og þetta geti þeir selt og farið með þegar þeir (Forseti hringir.) fara út úr greininni, peningana sem þeir fengu ókeypis hjá þjóðinni. Jafnaðarmenn, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson,(Forseti hringir.) eiga að sjá sóma sinn í því (Forseti hringir.) að breyta núverandi fiskveiðistjórnarkerfi.