135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[20:42]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessu fiskveiðistjórnarkerfi hefur verið breytt oftar en nokkur getur talið. (GMJ: Aldrei í grundvallaratriðum.) Hv. þingmaður nefndi hversu flókið það gæti verið að telja fiskana í sjónum — maður mér nokkuð nákominn, sem hefur ágæta þekkingu á sjónum, orðaði þetta á þá leið að það væri mjög athyglisvert að fiskifræðingar gætu á haustin sagt okkur hve margir fiskar væru í sjónum því að jafnvel þó að Vatnsdalshólarnir væru uppi í landi, kyrrir á sínum stað, gengi illa að telja þá. Þessi sami maður hefur oft sagt mér að hann hafi takmarkaða trú á því að talningin sé mjög nákvæm miðað við hve erfitt hefur reynst að telja aðra hluti í náttúrunni, jafnvel þá sem standa mönnum nær og eru mun færri.

Það var líka athyglisvert í andsvari hv. þm. Grétars Mar Jónssonar að hann vísaði til þess að togslóðirnar, sem togararallið hefði verið stundað á, hefðu verið nánast á sömu bleðlum eða sömu bleyðum (GMJ: Sömu strikin.) — sömu strikin. Þeim hefur verið fjölgað verulega að undanförnu. Það var kannski ekki síst fyrir orðræðu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar sem m.a. kom að upphafi togararallsins með því að skipuleggja hvar ætti að toga. Hann hafði orð á því að fiskarnir hefðu sporð og gætu fært sig og ef búið væri að rústa lífríkinu væri ekki galið að reyna fyrir sér einhvers staðar annars staðar.

Í þessum tveimur litlu sögum endurspeglast kannski að mikil þekking er meðal sjómanna sem við eigum að nýta og við eigum að þróa fiskifræðina og rannsóknir með sjómönnunum. Það hefur okkur ekki tekist hingað til.