135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

stofnun norrænna lýðháskóla.

275. mál
[20:45]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um stofnun norrænna lýðháskóla, frá utanríkismálanefnd. Nefndin hefur farið yfir málið og fengið á sinn fund Karl V. Matthíasson, formann Vestnorræna ráðsins og Íslandsdeildar þess, og Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra sama ráðs. Nokkrar umsagnir hafa einnig borist vegna málsins og allar eru þær mjög jákvæðar.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um fjárhagslegan stuðning við vinnuhóp á vegum Vestnorræna ráðsins sem í samvinnu við forsætisnefnd og skrifstofu ráðsins útfæri tillögu að stofnun norrænna lýðháskóla á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Með ályktun nr. 8/2007 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 23. ágúst 2007 samþykkti ráðið að beina þessari áskorun til ríkisstjórna Íslands, Færeyja og Grænlands og benti á að á tíu ára afmæli þess væri tilefni til að ráðast í verkefni sem vitnaði um þau markmið ráðsins að efla samvinnu milli Vestur-Norðurlandanna og styrkja stöðu þeirra innan norræns samstarfs.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Bjarni Benediktsson og Guðfinna S. Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir álitið rita hv. þm. Árni Páll Árnason, Steingrímur J. Sigfússon, Ásta R. Jóhannesdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Björk Guðjónsdóttir og Lúðvík Bergvinsson.