135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

þjóðlendur.

386. mál
[20:49]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Þjóðlendumálið hefur verið tekið í rykkjum hér til umræðu á hv. Alþingi. Sauðkindin er þvermóðskufull skepna, ein sú erfiðasta í heiminum í þeim efnum. Nánast sama á við um stjórnvöld og framgang þeirra varðandi þjóðlendurnar.

Það var alveg ljóst að það var tímabært þegar farið var af stað í þann leiðangur að stokka upp spilin, fara yfir stöðu mála í heild. Það var mikil áhersla lögð á það að vinna það í sátt og samlyndi, að efla friðinn en egna ekki til ófriðar. En því miður var sú leið farin með ótrúlegri frekju og yfirgangi af hálfu embættismanna sem véluðu um málið. Þetta eru einfaldar staðreyndir. Það var farið offari af hálfu embættismanna í lagasetningu og sérstaklega í túlkun og sókn en það hefur verið hráskinnsleikur, leikur kattarins að músinni eins og ríkisvaldið hefur hegðað sér. Það hefur ugglaust ekki verið meiningin í hugsun margra sem búa í okkar góða landi að það eigi að vera verklag sem sé viðurkennt og tekið orðalaust. Þess vegna er ástæða til að berja höfðinu við steininn og vekja athygli á því að þetta hefur verið og er enn þá í ófullnægjandi farvegi.

Á fyrra falli heimtu lands í skjóli þjóðlendulaga fór ekki á milli mála að það var þjösnast á rétti bænda og landeigenda og þeim gert að sanna eignarrétt sinn þótt því hefði auðvitað átt að vera öfugt farið. Heldur hafa sóknartökin og yfirgangur linast í tíð núverandi hæstv. fjármálaráðherra en mikils óréttlætis hefur gætt samt sem áður eins og dæmin sanna, t.d. í Öræfum og víðar í Suðurkjördæmi og núna síðast á Norðurlandi þar sem ríkisvaldið ræðst á eignarréttinn með frekum hætti.

Það er raunar svo að lögin eins og þau eru þau gefa færi á því að á þessu sé tekið með geðþóttaákvörðun og í skjóli þess hafa tökin verið linuð. Það á ekki að vera hægt að gera þetta í skjóli geðþóttaákvarðana. Þetta er allt of alvarlegt og persónulegt mál og mikilvægt í stöðu fólksins í landinu, bændanna um allt land og þeirra sem rækta landið.

Búseta og eignarréttur, rétturinn í þeim efnum á ekki að vera byggður á geðþótta. Þess vegna er nauðsynlegt að breyta lögunum eins og það frumvarp sem hér er fjallað um mælir fyrir. Það er til að sníða af vankantana og koma á ró með skynsamlegum rökum og réttlæti. Það þarf að taka af öll tvímæli og friðmælast en ekki beita valdníðslu.

Það hefur verið hart sótt til að mynda að mörgum Öræfingum og ég veit það á eigin geði, langalangafi minn var Öræfingur, búsettur á Hofi í Öræfum, að þeir gefa aldrei tommu eftir. Ekki nema að rök séu færð til til þess að gera hlutina. (KHG: Er það rétt að þeir geti hvorki sagt já eða nei?) Þeir í Öræfum eru þekktir fyrir það að segja frekar já eða nei en margir aðrir Skaftfellingar. (Gripið fram í.)

Það var eins og Björn í Úthlíð sagði í upphafi þessa máls. Á fyrsta fundi sem líklega var fyrir um sjö, átta árum, kannski níu, í Aratungu í Biskupstungum þá sagði Björn í Úthlíð: Við Haukdælir munum berjast til síðasta blóðdropa í þessu máli. Og það eru margir Haukdælirnir sem ganga til liðs við þá raunverulegu Haukdæli því þetta er spurning um tæran lýðræðisrétt en ekki logn eða moðsuðu valdbeitingarmanna.

Það er mikilvægt að friður ríki um fornar hefðir og út úr kú þegar ríkisvaldið heimtar ljósrit frá 10. öld og nær lætur að gert hafi verið í framgangi þjóðlendumálsins. En þessir ágætu embættismenn virðast gleyma því að það voru ekki til ljósritunartæki á þeirri öld. Og því minna um rafurmagnið.

Sýnum bændum landsins þá virðingu að virða rétt þeirra og víst er að þeir eru bestu vörslumenn íslenskrar foldar og kannski verða þeir ankerið sem dugar þegar erlendar valdafléttur munu sækja að Íslandi hvort sem það verður Evrópubandalagið eða einhver önnur valdablokk sem Íslendingar munu vonandi aldrei treysta á.

Þetta er kannski spurning um gamla Sovét og nýja Sovét. Fyrirbæri sem er ekki mikilsvert að púkka upp á fyrir okkur Íslendinga. Við höfum lifað af vegna þess að við höfum alla tíð verið sjálfstæðir í hugsun og sjálfstæðir í framgangi þótt að okkur hafi verið sótt.

Á Íslandi ætti það að vera svo að bændur og landeigendur nytu vafans en ekki ríkisvaldið þegar kemur að þjóðlendumálunum. Það væri í samræmi við hefðirnar og sjálfstæðið, sjálfstæðið sem varð þess valdandi að Ísland er byggt.