135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

heimsmarkaðsverð á olíu.

[13:49]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hæstv. forsætisráðherra veltir þessum hlutum fyrir sér. Það er spurning hvort ekki er (Gripið fram í: Hann gerir ekkert.) mikilvægt t.d. að skipa nefnd, þó væri nú ekki annað, sem gæti þá reynt að átta sig á afleiðingunum sem þetta getur haft.

Að mínu mati þarf, hæstv. forseti, að koma hvati frá ríkisstjórninni. Það var ákveðið að búið yrði að móta framtíðarstefnu í þessum efnum hvað varðar tollana fyrir lok þessa árs. Árið 1998 var þessi stefna mynduð og mótuð af þeirri ríkisstjórn sem þá sat og þá var aðeins ein ríkisstjórn í landinu á þeim tíma, ég tek það fram. Hún mótaði þá stefnu að reyna að leggja sig fram um að Ísland yrði fyrsta landið í heiminum sem gæti orðið óháð jarðefnaeldsneyti.

Þetta var stór yfirlýsing en hún vakti líka mikla athygli. Ef við vinnum vel að þessum málum eigum við möguleika á að gera (Forseti hringir.) stóra hluti, því það eru eingöngu samgöngurnar og fiskiskipaflotinn sem notar jarðefnaeldsneyti eins og kom fram hjá forsætisráðherra.