135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

merking grænmetis.

[13:57]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek eindregið undir með hv. þingmanni að það væri algjörlega óþolandi ef slíkt viðgengist og að sjálfsögðu munum við aldrei láta það líðast.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu og þá góðu ábendingu sem hérna kemur fram. Hún mun sjálfsagt verða til þess að þar til bærar stofnanir grípi inn í málið og taki það föstum tökum og kanni hvort einhverjar vísbendingar séu um slíkt og hvort rökstuddur grunur liggi fyrir um að slíkur háttur sé hafður á. Ég mun að sjálfsögðu vekja athygli þeirra og engin ástæða er til að ætla annað en að málið verði skoðað ofan í kjölinn. Ég mun hvetja mjög eindregið til þess að það verði gert.

Þetta er grafalvarlegt mál sem er fráleitt hægt að leiða hjá sér án þess að það verði leitt fullkomlega til lykta hvort um alvarleg vörusvik er að ræða eða ekki. Ég fagna ábendingu frá hv. þingmanni og þakka honum fyrir að vekja athygli á þessu. Það verður alveg örugglega kannað til hins ýtrasta.