135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

bætt kjör umönnunarstétta.

[14:00]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda eru kjarasamningar í gangi. Við, forustumenn ríkisstjórnarinnar, höfum átt viðræður við fulltrúa þeirra bandalaga sem ríkið er að semja við um mál sem hv. þingmaður nefndi. Þau hafa borið þar á góma og þau eru til umræðu í þessum kjarasamningum á einn eða annan hátt. Í því tilboði sem þegar hefur verið kynnt, til dæmis BSRB, eru áþreifanleg skref í þessa átt.

Það er afar vandmeðfarið að fjalla í þingsölum um kjarasamninga sem standa yfir og eins og ég hef oft sagt áður þá verða þessi mál ekki leyst á þessum vettvangi. En ég leyfi mér að vona að staðan í kjarasamningunum sé þokkalega góð um þessar mundir og að niðurstaðan sem út úr þeim komi muni skila okkur í áttina að því sem bæði viðsemjendurnir og ríkisstjórnin stefna að í þessum efnum.