135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

skipan Evrópunefndar.

598. mál
[14:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Hinn 31. mars síðastliðinn skipaði hæstv. forsætisráðherra sérstaka nefnd um þróun Evrópumála og segir meðal annars í erindisbréfi nefndarinnar að verkefni hennar sé, með leyfi forseta:

„1. Að fylgja eftir tillögum Evrópunefndar frá mars 2007 um aukna þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópustarfi.

2. Að framkvæma nánari athugun á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði best borgið í framtíðinni gagnvart Evrópusambandinu, á grunni niðurstaðna Evrópunefndar frá mars 2007.

3. Að fylgjast með þróun mála í Evrópu og leggja mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga.“

Þessi nefndarskipun kemur meðal annars í framhaldi af vinnu Evrópunefndar sem skilaði ítarlegri skýrslu á síðasta ári og hér er í bréfi forsætisráðherra einnig vísað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar núverandi þar sem ákveðið var að setja slíka nefnd á laggirnar.

Nú er ljóst að sveitarfélögin gegna gríðarlega þýðingarmiklu hlutverki í stjórnsýslunni og raunar ekki bara í stjórnsýslunni heldur sem aðilar á vinnumarkaði má segja. Sveitarfélögin eru einn stærsti vinnuveitandinn í landinu og gegna þar af leiðandi miklu hlutverki. Í skýrslu sem hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt fram á Alþingi að minni beiðni og fleiri þingmanna um skuldbindingar sveitarfélaganna í EES-samningnum kemur fram að áætlað sé að sveitarfélögin eða svokölluð staðbundin stjórnvöld beri ábyrgð á um þremur fjórðu eða 75% af allri löggjöf Evrópusambandsins sem hér er innleidd þannig að augljóslega eru þar á ferðinni mjög ríkir hagsmunir.

Þess má líka geta að í upphafi voru staðbundin stjórnvöld eða sveitarfélög ekkert sérstaklega nefnd í sáttmála Evrópusambandsins en með þeim svokallaða Lissabonsáttmála sem nú er í fullgildingarferli er hlutverk staðbundinna stjórnvalda, sveitarfélaganna þar á meðal, í fyrsta skipti nefnt á nafn og þeim er fengið alveg sérstakt hlutverk. Það hefur einnig verið gert með stofnun héraðanefndarinnar frá Maastrichtsamningnum þannig að ljóst er að hlutverk og verkefni sveitarfélaganna hafa færst mjög í vöxt og þau bera mjög ríka skyldu og ábyrgð á innleiðingu löggjafar sem kemur frá Evrópusambandinu. Það skýtur þess vegna nokkuð skökku við, frú forseti, að mínu mati, að sveitarfélögin hafi ekki verið kölluð að þessum samráðsvettvangi sem Evrópunefndin er, einkum þegar það er haft í huga hversu mikilvægu hlutverki þau hafa að gegna. Ég hef þess vegna leyft mér, virðulegur forseti, að leggja fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra:

Hverju sætir að sveitarfélögin eiga ekki aðild að nýskipaðri Evrópunefnd sem á að fjalla um hagsmuni Íslands í Evrópustarfi og hafa sveitarfélögin þó, samkvæmt nýlegri skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis, (Forseti hringir.) ríkar skuldbindingar í EES-samningnum og eiga þar mikilla hagsmuna að gæta?