135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

skipan Evrópunefndar.

598. mál
[14:13]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hinn 2. maí síðastliðinn ritaði Samband íslenskra sveitarfélaga mér bréf og óskaði eftir því að tilnefna fulltrúa og annan til vara í umrædda nefnd um þróun Evrópumála. Þann 7. maí svaraði ég þessu bréfi. Ég vísaði í upphaflega bréfið frá sambandinu og bætti síðan við, með leyfi forseta:

„Ekki er á þessu stigið talið tilefni til slíkrar fjölgunar í nefndinni.

Upphaflega var fyrirhuguð stofnun samráðsvettvangs stjórnmálaflokka á Alþingi um Evrópumál. Síðan var ákveðið að stofna nefnd fulltrúa flokkanna og helstu hagsmunaaðila í atvinnulífinu sem fylgjast skyldi með þróun mála innan Evrópusambandsins og hugsanlegum áhrifum á Evrópska efnahagssvæðið og Ísland. Ekki var gert ráð fyrir sérstökum fulltrúum stjórnsýslustiganna tveggja heldur að fulltrúar stjórnmálaflokkanna í nefndinni kæmu þar á framfæri sjónarmiðum ríkis og sveitarfélaga og gættu hagsmuna þeirra. Mikilvægt var talið að stuðla að skilvirkni í þessu nefndarstarfi með því að halda fjölda nefndarmanna innan ákveðinna marka.

Samband íslenskra sveitarfélaga er hvatt til að leita til formanna nefndarinnar, Illuga Gunnarssonar alþingismanns og Ágústs Ólafs Ágústssonar alþingismanns, eftir upplýsingum eða vegna sérstakra áherslna.

Jafnframt fylgir hjálagt listi yfir alla nefndarmenn.“

Ég hygg að þetta bréf svari fyrirspurn hv. þingmanns. Ég get bætt því við að það var ekki hugmyndin, eins og segir í bréfinu, að þarna væru endilega fulltrúar stjórnsýslustiganna. Það er enginn sérstakur fulltrúi ráðuneyta til dæmis í þessari nefnd. Þó að sveitarfélögin gegni vissulega mikilvægu hlutverki og hafi heilmikilla hagsmuna að gæta gagnvart Evrópumálum og þróun þeirra þá er þessi nefnd ekki þannig saman sett að viðeigandi sé að þau tilnefni fulltrúa beint. Auðvitað verður til þeirra leitað og þau geta leitað til nefndarinnar eftir þörfum. En fulltrúar stjórnmálaflokkanna munu hafa það hlutverk að gæta hagsmuna bæði ríkis og sveitarfélaga í þessu ef svo mætti segja.