135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

skipan Evrópunefndar.

598. mál
[14:17]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Já, það er sannarlega þörf á því að mínu mati að sveitarfélögin fái aðkomu að Evrópunefndinni enda er hér um mjög stórt hagsmunamál að ræða fyrir sveitarstjórnarstigið í landinu hvernig við Íslendingar högum okkar samskiptum við Evrópu. Það er rétt sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði áðan að ég spurði hæstv. forsætisráðherra á fyrsta fundi nefndarinnar hvort það hefði ekki verið æskilegt að fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga sætu í þessari nefnd fyrst á annað borð var farið að útvíkka hana. Ég tel einboðið að setja eigi fulltrúa sveitarstjórnarstigsins inn í þessa nefnd. Hún sinnir mikilvægu verkefni, þ.e. að kanna samskipti Íslands við Evrópu til framtíðar litið. Sveitarstjórnarstigið er mjög stórt stig sem veltir tugum milljarða. Þetta er stór vinnuveitandi og gegnir mjög miklum skyldum gagnvart almenningi í landinu. Það er ófært annað að mínu viti en að sveitarfélögin fái (Forseti hringir.) aðkomu að þessari nefnd. Ég skora hér með á hæstv. forsætisráðherra að verða við þeirri ósk að sveitarfélögin fái aðkomu að Evrópunefndinni.