135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

skipan Evrópunefndar.

598. mál
[14:18]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir greinargott svar. Ég vil þó segja að ég er algjörlega ósammála þessu mati og ég held að í því felist hálfgerð meinloka eða hugsanlega vanþekking eða misskilningur á hlutverki sveitarfélaganna í þessu samhengi.

Nú hefur verið starfandi um nokkurra ára skeið svokölluð héraðanefnd Evrópusambandsins sem er vettvangur staðbundinna stjórnvalda til þess að fjalla um löggjöf sem er í vinnslu hjá Evrópusambandinu. Sveitarstjórnarstigið í Evrópusambandinu á aðild að þessari nefnd. Hún er skipuð 344 fulltrúum, ekki 222 eins og segir hér í svari hæstv. utanríkisráðherra varðandi þetta mál. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur samband við þessa nefnd. Í skýrslunni sem ég hef áður vitnað til frá hæstv. utanríkisráðherra segir m.a. að íslensk stjórnvöld telji mikilvægt að nýta tækifæri af þessu tagi til áhrifa. Þar er verið að vísa í tengsl Sambands íslenskra sveitarfélaga inn í verk Evrópusambandsins, einnig samtök evrópskra sveitarfélaga sem er sá vettvangur sem Evrópusambandið sjálft hefur samstarf við á sviði mála sem snerta sveitarfélögin. Í mörgum tilvikum er það svo að það er ekki síður sveitarstjórnarstigið sem veitir ríkisvaldinu upplýsingar um það sem er í gangi, það þekki ég persónulega mætavel. Ráðuneytin hér á landi hafa jafnframt sagt að það sé í sumum tilfellum þannig. Ég held að nefndin yrði þá breiðari og fengi meiri þekkingu og kunnáttu inn í starf sitt ef fulltrúi sveitarfélaganna sæti í nefndinni.

Ég hef enga trú á að það sé af illum hug gagnvart sveitarfélögunum að þau skuli ekki eiga fulltrúa í Evrópunefndinni, ég held að þetta sé gleymska. Það þarf að horfast í augu við að það er skynsamlegt að fá sveitarfélögin að þessu borði. Þau hafa ríkra hagsmuna að gæta en þau hafa líka mikið til málanna að leggja. (Forseti hringir.) Ég vil því hvetja hæstv. forsætisráðherra til þess að skoða þetta mál á nýjan leik.