135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

samráðsvettvangur um efnahagsmál.

617. mál
[14:30]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Bændasamtök Íslands eru ekki bara einhver samtök án þess að ég ætli að fara að tala neitt niður til annarra samtaka sem um er rætt. Búið er að kalla að borðinu Samtök atvinnulífsins, Samtök launafólks, ríkisstjórnina og Samtök sveitarfélaga. Samtök bænda og landbúnaðurinn eiga enga aðild að neinum þessara þátta. Engu að síður er þeirra hlutur, matvælaframleiðslan, fæðuöryggið, verð á matvöru, mikilvægur þáttur í íslensku þjóðarbúi. Steingrímur Hermannsson, sem leiddi þjóðarsáttarsamningana á sínum tíma, lagði mikla áherslu á aðild Bændasamtakanna og taldi að hún hefði skipt sköpum.

Nú er mikið rætt um ástandið hvað varðar matvæli í heiminum. Síðast í morgun var greint frá neyðarfundi nokkurra forustumanna stærstu þjóða heims í New York um ástand matvælamarkaðarins í heiminum og framleiðslu matvara. Þeir töldu að þær hættur sem þar væru á ferðinni gætu ógnað næsta heimsfriði, baráttan og samkeppnin um mat. Það sama á við hér. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Ég skil ekki af hverju hæstv. forsætisráðherra hefur á móti því að leita eftir því að Bændasamtökin fái aðild að þessum samráðsvettvangi. Mér finnst það með ólíkindum.

Ég vitnaði til þess að formaður Samfylkingarinnar taldi Bændasamtökin upp sem nauðsynlegan aðila á þeim samráðsvettvangi í grein sinni þann 1. maí. Ég ítreka það því, (Forseti hringir.) frú forseti, að ég skora á hæstv. forsætisráðherra, og vona að hann beri gæfu til þess, að kalla (Forseti hringir.) Bændasamtök Íslands að þeim samráðsvettvangi sem hann hefur skipað.