135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[15:24]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það getur vel verið að menn mundu kjósa að gera einhverjar breytingar á lögunum samtímis því að þetta yrði gert að hefðbundnum ríkisrekstri. Munurinn er sá að ef málið yrði afgreitt í þá veru sem við tölum fyrir yrði það a.m.k. ekki bannað.

Ég tel að besta orðalagið hér væri á þann veg, og mér finnst þetta ekki skýrt eins og hv. þingmaður reynir að halda fram — alltsvo hvar liggur ábyrgðin nákvæmlega í þessu tilviki? Ég tel að þarna ætti að standa: Rekstur vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar skal vera á ábyrgð ríkisins, þannig að það sé ljóst að ríkið ber yfirábyrgð á því að þessi þjónusta sé veitt og að hún sé til staðar. Til málamiðlunar gæti ég alveg sæst á, eða teldi það a.m.k. til verulegra bóta, að þar stæði: Rekstur vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar skal starfræktur á ábyrgð ríkisins en heimilt er þó að hafa reksturinn í höndum hlutafélags o.s.frv. Þá er ábyrgðin skýr, ríkið ber ábyrgð á því að þessi starfsemi sé til staðar.

Segjum nú að einhverjir aðilar að hlutafélaginu vilji losna, segi: Við lítum ekki lengur á það sem okkar skyldu að eiga bundið fé í hlutafélagi um þetta mál. Hver ætlar þá að vera ábyrgur, hver ætlar að leysa hlutinn þeirra til sín? Ætli það yrði ekki ríkið? Auðvitað ætti það að vera skýrt í lagatextanum. Segjum svo að þeir mæti allir á morgun, Reykjavíkurborg, Landsvirkjun og Orkuveitan, og segi: Við viljum út. Hvað ætla menn að gera? Ætla menn að leggja starfsemina niður, leysa upp hlutafélagið, á að fara að reyna að selja einhverjum öðrum hlutinn o.s.frv.?

Ætli þetta sé nú endilega eins skýrt, vandað og þaulhugsað og hv. þingmaður vill vera láta? Mér finnst ekki nógu skýrt um þetta búið, ég tel að það eigi að vera algerlega kristaltært að ríkið stendur á bak við þetta, ber ábyrgðina á og tryggir að þessi starfsemi verði til staðar, (Forseti hringir.) sér um hana sjálft. Eftir atvikum gæti af sögulegum ástæðum alveg verið í lagi að fyrst um sinn a.m.k. (Forseti hringir.) héldist það samstarf sem er við lýði í dag en því mætti þó auðvitað breyta að mínu mati.