135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[15:34]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég sé mig knúinn til þess að taka til máls í umræðu um frumvarp um samræmda neyðarsvörun og vekja athygli á nokkrum atriðum í því, sérstaklega það skilyrta ákvæði að þetta skuli vera hlutafélag.

Ég sit í fjárlaganefnd Alþingis fyrir þingflokk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þar hafa ítrekað komið á borð vandkvæði varðandi fjárhag og fjárreiður, rekstur og umgjörð opinberra hlutafélaga. Þarna er um að ræða hlutafélög sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins eða að öllu leyti, eru að langmestu leyti á framfæri Alþingis eða fá fjárveitingar sínar í gegnum það en geta þrátt fyrir það rekið fjárhag sinn og starfsemi utan við öll eftirlitskerfi og aðkomumöguleika Alþingis.

Það hafa ítrekað komið fram mjög alvarlegar athugasemdir af hálfu Ríkisendurskoðunar með skipan þessara mála. Það hefur verið bent á að þessi hlutafélagavæðing á opinberri þjónustu, á opinberum verkefnum, sé alvarlegasta meinsemd sem sé að grafa um sig á íslenskri opinberri fjármálastjórn.

Ég get nefnt dæmi. Ég hef því miður ekki, frú forseti, skýrslur Ríkisendurskoðunar hér en ég spyr formann nefndarinnar, formann allsherjarnefndar hv. þm. Birgi Ármannsson, hvort umsagna Ríkisendurskoðunar varðandi þetta mál hafi verið leitað. Það er dapurlegt ef við fáum og Alþingi fær reglulega skýrslur og ábendingar frá Ríkisendurskoðun ef ekkert er svo gert með það.

Ég hefði talið mjög fróðlegt að heyra viðhorf Ríkisendurskoðunar varðandi umrætt mál því mér sýnist að allar reglur í kringum stofnun hlutafélags á samkeppnismarkaði séu hér brotnar. Þegar hlutafélag er stofnað þá er það hlutafélag um rekstur á samkeppnismarkaði. Því eru settar almennar reglur um starfsemi og reglur um hvernig skuli hátta arðsemiskröfum, útdeilingu arðs o.s.frv. Það hentar vel í almennum atvinnurekstri. Ég krefst þess því að hv. formaður allsherjarnefndar svari því hvort umsagnar Ríkisendurskoðunar hafi verið leitað og hvort nefndin hafi kynnt sér þær alvarlegu aðfinnslur sem hafa komið fram í skýrslum stofnunarinnar á undanförnum missirum varðandi þetta rekstrarform á opinberri þjónustu, á opinberu fyrirtæki.

Ég tel það mjög til vansa ef svo er ekki og ég vona að ég hafi rangt fyrir mér í því og að formaður nefndarinnar hafi kannað þetta. En það er mjög til vansa ef við fáum hér ár eftir ár aðfinnslur og ábendingar frá Ríkisendurskoðun sem síðan er ekkert gert með.

Í 4. gr. er kynnt að öllum viðbragðsaðilum sé skylt að tengjast vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar, þ.e. að tengjast rekstri og starfsemi þessa hlutafélags. Þetta hlutafélag er það eina á markaðnum og því er engin samkeppni í sjálfu sér en samkeppni er forsenda þess að maður stofni hlutafélag um rekstur af þessu tagi eða öðru, atvinnurekstur. Þar á það vel heima en ekki í opinberri grundvallarþjónustu í öryggismálum þjóðarinnar. Í 4. gr. er þar af leiðandi grunnþáttur hlutafélagsformsins brotinn að mínu mati og hér er því fullkomin lögleysa á ferð, þ.e. þessi blinda trú á að allt skuli bundið í hlutafélögum. Hlutafélög eru góð þar sem þau eiga við en það á ekki að misnota hlutafélagaformið eins og verið er að gera í umræddu frumvarpi.

Mér þætti líka fróðlegt að vita og vona að hv. formaður allsherjarnefndar heyri orð mín: (Gripið fram í.) Hvernig er skattgreiðslum þessa fyrirtækis háttað? Hvernig er virðisaukaskattsrétti þess háttað, fyrirtækis sem að langmestu leyti er fjármagnað af opinberu fé með beinum og óbeinum hætti? Ég hefði viljað sjá það. Af því að ég sit ekki í nefndinni þá veit ég ekki hvort ríkisskattstjóri hafi gefið umsögn með þessu frumvarpi.

En ég veit það að með hliðstæð fyrirtæki, t.d. Flugstoðir þar sem hlutafélag var stofnað um starfsemi sem er nánast alfarið fjármögnuð af ríkinu og ber þar gríðarlega mikla ábyrgð gagnvart opinberri þjónustu ríkisins þá fær það fyrirtæki að valsa nánast frjálst um, er áskrifandi að fjármagni frá ríkinu en ríkið og ríkisstofnanir fjárlaganefnd og aðrir aðilar geta ekki beitt því eftirliti sem þarf og ber lögum samkvæmt.

Ég hélt að það væri að myndast sátt og skilningur á því að það að stofna hlutafélag um rekstur og þjónustu ríkisins væri fíflagangur, að menn væru að átta sig á að þetta væri á villigötum og stæðist ekki einu sinni almenn lög. Ég vil því ítrekað spyrja hvort búið sé að setja þessu fyrirtæki arðsemiskröfur eins og ber að gera varðandi hlutafélög. Ég er ekki að leggja það til að þetta fyrirtæki eigi að fara að stunda slíkt en ef opinber neyðarþjónusta af þessu tagi er sett inn í form um hlutafélög, þó að það heiti ohf., þá ber að uppfylla þessi hin ýmsu skilyrði.

Ég vil líka spyrja formann allsherjarnefndar, af því að þingmaðurinn hefur verið svo blindur á að það verði að binda þetta í hlutafélagareksturinn, hvort hann hafi kynnt sér hvernig starfsemi og rekstri annarra hlutafélaga í opinberri eigu er háttað, t.d. Flugstoða, og hver hamingja sé með það rekstrarform gagnvart opinberri stjórnsýslu, gagnvart eftirlitsaðilum með fjárlögum hins opinbera. Það er sko engin sæla um það. Á þetta hefur Ríkisendurskoðun einmitt bent svo rækilega í skýrslum sínum, í ábendingum og athugasemdum til Alþingis (Gripið fram í: Jæja?) sem ekkert virðist eiga að gera með ef þessi ógjörningur á að ná fram að ganga, órökstuddur eins og hann hefur verið borinn hér fram.

Þessu vil ég koma á framfæri, frú forseti, og ég vísa til starfa minna í fjárlaganefnd, í fjárstjórn ríkisins en þar birtist svo rækilega í hvers konar ólestri hún er gagnvart þessum rekstrarformum. Og hv. þm. Birgi Ármannssyni ætti að vera þetta vel kunnugt, hvers konar vandamál það er í fjársýslunni og í fjármálastjórninni með þessi opinberu hlutafélög sem eru ein á markaðnum með grundvallarþjónustu af hálfu hins opinbera og fá meiri hluta fjármagnsins þar. Áframhald á þessari braut, þar sem þetta form með grunnþátt öryggismála á að ríkja, neyðarsímsvörun sem allir eiga að vera tengdir og treysta á og allir vilja grípa til þegar á þarf að halda, ekki bara þegar samkeppnisaðilanum hentar það gengur ekki.

Það má vel vera að stjórnarliðunum finnist þetta málþóf. Það er það ekki, þetta snýst um grundvallaratriði í fjársýslu ríkisins og þó að það hafi verið farið með það af léttúð á undanförnum árum þá finnst mér vera komið nóg. Ég veit að formaður fjárlaganefndar hefur fjarvist í dag en ég hefði viljað heyra t.d. varaformann fjárlaganefndar blessa þessa aðgerð og hlutafélagavæðingu eða slíkt hlutafélagsform á öryggisþjónustu, hafandi verið í fjárlaganefnd og heyrt þær alvarlegu athugasemdir sem þar hafa komið fram og ábendingar um hversu vitlaust og vanhæft þetta rekstrarform er gagnvart opinberri þjónustu sem fær fjármagn frá ríkinu.

Frú forseti. Ég hef lagt hér fram nokkrar spurningar sem ég sem fulltrúi í fjárlaganefnd tel að ég eigi að fá svör við áður en þessu máli er haldið áfram. Ég legg reyndar til eða mundi meta það af svörum formanns allsherjarnefndar, hvernig hann getur rökstutt og svarað því sem ég hef hér spurt um, en annars legg ég til að umræðunni um þetta mál verði frestað og frekari upplýsinga um það aflað áður en það er keyrt lengra á þennan hátt.