135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

svör við fyrirspurnum.

[18:02]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur þegar hún var að vekja máls á því hversu lengi hefur dregist að svara ýmsum fyrirspurnum. Ég tók sjálfur þetta mál hér upp fyrir ekki mjög löngu síðan og vakti máls á því hversu mörgum fyrirspurnum væri ósvarað og að það hefði dregist oft lengi.

Sjálfur gerði ég athugasemd við að ég á hér fyrirspurn frá því í febrúarmánuði síðastliðnum til forsætisráðherra sem mér skilst reyndar af embættismönnum þingsins að sé hér einhvers staðar í prentvélinni í húsinu og það standi til að dreifa svari við hér á hverri mínútu. Engu að síður er þetta auðvitað allt of langur tími og miklu lengri tími en þingsköpin gera ráð fyrir og mér finnst eðlilegt að þessi vinnubrögð séu tekin til frekari umræðu á vettvangi stjórnar þingsins.