135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[18:05]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við tökum nú til við að ræða aftur frumvarp til laga um samræmda neyðarsvörun sem hér var á dagskrá fyrr í dag. Þar var nokkuð til umræðu og einkum og sér í lagi orðalag 8. gr. um rekstrarform eða fyrirkomulag þessarar starfsemi. Ég leyfði mér þar að reifa munnlega mögulega breytingu sem mér finnst að ætti að geta orðið grundvöllur sátta miðað við þá umræðu sem hér hafði farið fram, þær breytingartillögur sem fyrir liggja og svör formanns allsherjarnefndar þar um, þar sem vísað var meðal annars til þess að reksturinn væri í hlutafélagi í dag og að því stæðu tilteknir aðilar og að það fyrirkomulag hefði gefist vel.

Okkar gagnrýni hefur ekki síst snúið að því að okkur finnst óeðlilegt að bannað sé með lögum að opna möguleikana á annars konar rekstrarfyrirkomulagi og aðilinn sjálfur sem málið varðar, þ.e. Neyðarlínan eða miðstöðin, bendir á þann möguleika í umsögn sinni að þetta verði haft valkvætt, það sé sem sagt opið að hafa þetta í hlutafélagi en því ekki endilega slegið föstu að svo þurfi að vera. Aðrir aðilar, eins og ríkislögreglustjóri, benda á mikilvægi þess að ábyrgð ríkisins í þessu sambandi sé fortakslaus, það sé ljóst að þessi starfsemi skuli fara fram eða henni skuli haldið úti og að ríkið þurfi að bera þar ábyrgð. Ég ímynda mér að þetta mætti þá leysa á þann hátt, eins og ég hef síðan flutt breytingartillögu um á þingskjali 1052, að 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. orðaðist eitthvað á þessa leið, með leyfi forseta:

„Rekstur vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar skal starfræktur á ábyrgð ríkisins en heimilt er að hafa reksturinn í höndum hlutafélags um rekstur slíkrar stöðvar í samstarfi við aðra opinbera aðila.“

Ég viðurkenni að þetta er ekki á neinni sérstakri gullaldaríslensku, herra forseti, en ég held að þetta skiljist alveg og merkingarlega sé nákvæmlega það sem ég var hér að gera grein fyrir og ég hefði vonast til að gæti verið ásættanlegur málamiðlunarkostur fyrir aðila málsins. Með öðrum orðum er þá ekki hróflað við núverandi fyrirkomulagi og það hefur trausta lagastoð. Það er heldur ekki útilokað að einhvern tímann síðar gætu orðið á breytingar. Það sem vinnst með þessu er að mínu mati það að ábyrgðin sé ótvíræð, að ábyrgðin sé ríkisins, að þessi starfsemi skuli vera til staðar og að samstarfsaðilar ríkisins eftir atvikum séu þá hinir sömu og í dag, þ.e. opinberir aðilar, sveitarfélög eða opinber fyrirtæki eins og á við um.

Þetta fyrirbyggir ýmislegt ef út í það væri farið. Það er ljóst að þá getur ekki orðið neitt los á eignarhaldinu. Það fer ekki úr höndum þessara opinberu aðila, ríkis, sveitarfélaga, opinberra fyrirtækja eða stofnana sem eðlilegt getur verið út af fyrir sig og eftir atvikum að komi að þessu máli. Það er opið fyrir það að fleiri slíkir bætist við ef því væri að skipta og þetta lokar heldur ekki á að hið opinbera eignarhald taki breytingum, þ.e. að einhverjir minnki sinn hlut eða hverfi úr hópnum og aðrir bætist við og svo framvegis.

Ég held því að svona sé þá um málið búið á þann hátt að allir ættu að gera vel við unað. Með þessu er komið til móts við athugasemdir bæði Neyðarlínunnar og ríkislögreglustjóra og þau sjónarmið sem helst hafa verið uppi hér í umræðunni. Mætti þetta verða til þess að menn gætu afgreitt málið síðan í sátt og samlyndi, kannski með fyrirvörum þó sem hér hafa verið uppi um kostnaðarmál sem tengjast sveitarfélögum og öðru slíku þá held ég að það væri nú skemmtilegri svipur á því fyrir Alþingi að mál af þessu tagi næði höfn í góðri þverpólitískri sátt af því, eins og ég sagði hér fyrr í dag, þá á ekki að þurfa að vera einhver flokkspólitískur eða efnislegur ágreiningur uppi um mál af þessu tagi. Satt best að segja held ég að Alþingi sé ekki alveg að vinna vinnuna sína ef það kemur sér ekki í gegnum að leysa slík mál og klára málið í samstöðu.