135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[18:10]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í tilefni af þessari breytingartillögu nýframkominni frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni segja að mér finnst ekki tilefni til þess að taka hana inn. Ég er sáttur við frumvarpstextann eins og hann er eftir 2. umr. í þinginu og eftir þá meðferð nefndar sem átti sér stað milli 1. og 2. umr. og tel ekki tilefni til að hrófla við þessu.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan um það að ef pólitískur meirihlutavilji hér á þinginu skapast til þess að breyta rekstrarformi Neyðarlínunnar þá þarf að mínu mati alltaf að breyta lögum um þetta efni. Ég tel að slíkur vilji sé ekki fyrir hendi. Hann kom ekki fram í störfum allsherjarnefndar þar sem fulltrúar allra flokka nema Vinstri grænna stóðu að sameiginlegu meirihlutaáliti sem gerir ráð fyrir því að þetta ákvæði verði óbreytt. Þess vegna sé ég ekki nú undir lok 3. umr. um málið ástæðu til þess að lýsa stuðningi við þessa breytingu heldur þvert á móti þá tel ég að heppilegra sé að frumvarpið nái fram að ganga í því formi sem það er nú eftir 2. umr.