135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[18:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst formaður allsherjarnefndar með endemum þversum í þessu máli og óliðlegur. Ég undrast að það skuli ekki einu sinni vera svo mikið sem opnuð glufa á að reyna að afgreiða málið hérna í samkomulagi. Þegar við reynum að teygja okkur mjög langt í átt til þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður hefur hér talað fyrir og erum langt frá því að leggja þá bara til það sem við teldum auðvitað eðlilegast í þessum efnum.

Hv. þingmaður verður að horfast í augu við að hér er uppi ágreiningur sem enginn vilji er af hans hálfu til að brúa, enginn. Ég tel að það séu veikleikar í málinu eins og allsherjarnefnd ætlar að ganga frá því eða meiri hluti hennar, til dæmis að ábyrgðin skuli ekki vera skýrð í þessum efnum. Það ber nýrra við ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera ekkert með athugasemdir og ábendingar frá til dæmis ríkislögreglustjóra eins og þarna eru eða frá málsaðilanum sjálfum, Neyðarlínunni. Er það orðið markmið í sjálfu sér hjá hv. þingmanni að afgreiða þetta í ágreiningi? Er ekki einu sinni hægt að stíga eitt hænufet í átt til einhverra annarra sjónarmiða? Hv. þingmaður fær í rauninni allt sitt fram hvað það varðar að ekki er verið að hrófla við núverandi rekstrarfyrirkomulagi og ríkisstjórnin getur bara haft allar sínar meiningar í þeim efnum og sofið alveg róleg út kjörtímabilið. Hún er þá að minnsta kosti við völd á meðan og hefur meiri hluta hér á þingi ef svo fer og þarf ekki að óttast breytingar. Það er í raun ekki verið að rugga bátnum á nokkurn hátt heldur koma þarna til móts við málefnalegar og rökstuddar athugasemdir utan úr greininni sem að þessu snúa.

Mér finnst það vera dálítið umhugsunarefni að hv. þingmaður skuli án umhugsunar koma hér upp og hafna algjörlega öllum hugmyndum um að menn mætist einhvers staðar, ekki einu sinni, á miðri leið kannski í þessu heldur reyni þó eitthvað til að leita sátta. Það skal þá vera alveg á hreinu að það hefur verið upp á það boðið af okkar hálfu og við gengið mjög langt í þeim efnum að bjóða upp á samkomulag um málið og það gerum við vegna þess að í hlut á starfsemi af þessu tagi sem mikilvægt er að menn standi vel að og helst þarf að (Forseti hringir.) ríkja sæmileg pólitísk sátt um.