135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[18:16]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, það er auðvitað ekki komið til móts við sjónarmið, hvorki allra né fárra ef enginn vilji er til þess. Ég skil hv. þingmann þannig að hann hafi ekki nokkurn minnsta vilja til þess að ljúka þessu máli hér í samkomulagi. Það væri sennilega alveg sama hversu langt við reyndum að teygja okkur, það er orðið að mottói hjá hv. þingmanni að það megi bara ekki gera breytingar á þessu.

Hv. þingmaður svarar í engu og reynir ekki að bera í bætifláka fyrir þá veikleika í frumvarpinu sem ég tel mig hafa bent á. Þeir eru auðvitað alvarlegir og ríkislögreglustjóri hefur bent á þá líka, þ.e. að ábyrgðin er ekki skýr í þessum efnum. Það segir bara að samræmd neyðarsvörun skuli sinna þessum verkefnum, það segir að málið heyri undir dómsmálaráðherra. Hvar í textanum er talað um ábyrgð ríkisins á því að þessi starfsemi sé veitt? Hvergi, eftir því sem ég fæ best séð. Ég var að ímynda mér að málið yrði lagfært og styrkt með breytingartillögu af þessu tagi.

Við erum ekki bara að tala hér fyrir okkar sjónarmiðum, við erum að taka undir athugasemdir aðila sem ég hélt að hv. þingmaður tæki tillit til. Telur hann heppilegt að haga málum algerlega óháð því að sjónarmið komi frá þeim sem annast starfsemi eins og Neyðarlínuna eða frá mikilvægum aðila að málinu eins og ríkislögreglustjóra fyrir hönd lögreglunnar í landinu? Það eru þá sennilega einhver jaðarsjónarmið, eða hvað hv. þingmaður kallaði það.

Síðan má spyrja, ef mér leyfist, herra forseti: Hvað hefur hv. þingmaður á móti orðalagi af því tagi sem er í breytingartillögu á þskj. 1052? Hefur hann eitthvað á móti því? Hvað er það sem hann getur ekki sætt sig við í þeim efnum, hvað er það nákvæmlega efnislega? Honum er skylt að svara því. Hvað er það sem hér er svo frábrugðið því sem er þá í textanum að öðru leyti en það sem augljóslega er til bóta að hv. þingmaður getur ekki stutt það? (Forseti hringir.) Það er ekkert annað eftir en þrákelknin í hv. þingmanni, löngun hans til að vera þversum sem er kannski vegna þess að málið er (Forseti hringir.) ættað frá dómsmálaráðuneytinu.