135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[18:27]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni af ummælum hv. þm. Jóns Bjarnasonar í þessu andsvari ítreka ég að mér er ekki kunnugt um að það hafi verið nein vandræði í rekstri Neyðarlínunnar sem tengjast með nokkrum hætti hlutafélagaforminu. Ekkert í umsögnum aðila eða þeim umræðum sem fóru fram í nefndinni gefur tilefni til að ætla að svo sé og þess vegna var ekki talin þörf á að fara í sérstaka skoðun á þessu.

Ég endurtek það svo sem ég sagði áðan að ég sé ekki að þau atriði sem hv. þm. Jón Bjarnason er að fjalla hér um tengist efni frumvarpsins nema með óbeinum hætti. Ég vísa að öðru leyti til þess sem ég hef áður sagt um það að hlutafélagaformið hefur reynst vel í þessu fyrirkomulagi. Meiri hluti nefndarinnar taldi enga ástæðu til þess að breyta því og hélt sig þess vegna við það orðalag sem var í frumvarpstextanum. Ef síðar myndast pólitískur vilji til þess að gera Neyðarlínuna að ríkisstofnun þarf málið hvort sem er að fara í gegnum lagabreytingarferli í þinginu. Ég held að talað sé með skýrum hætti um hvaða félagaform eigi að vera á þessu í lagatextanum. Ef menn vilja breyta því rekstrarformi á að gera það skýrt í nýjum lagatexta.