135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

ráðstöfun andvirðis vatnsréttinda kristfjárjarðanna Merkis og Arnarhóls.

516. mál
[18:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við lokaumfjöllun þessa máls vil ég minna á að ég hafði uppi ákveðna fyrirvara í umræðum um það og treysti mér ekki til að greiða því atkvæði mitt við 2. umr. Og fyrir því eru m.a. þær ástæður að mér finnst ekki nógu vel að því staðið af hálfu löggjafans og framkvæmdarvaldsins að setja þessi mál í einhvern nútímalegan umbúnað og ganga frá því í raun og veru í eitt skiptið fyrir öll hvernig staðið sé að því þegar þessar jarðir eiga í hlut.

Það er dálítið sérkennilegt að það skuli alltaf þurfa einhver sérlagaákvæði í hverju einstöku tilviki þegar jörð af þessu tagi skiptir um hendur, auðvitað ekki að skipta um hendur heldur þegar eitthvað sem varðar hana og hagsmuni hennar, arð frá henni eða annað í þeim dúr, á í hlut. Auðvitað ættu hér að vera komin almenn lög sem tækju á því hvernig með slíkt er farið og hvernig andvirðinu er ráðstafað og hvernig búið verður um þetta í frambúðar í lögum. Ég held að það standi upp á Alþingi, löggjafann eða þá eftir atvikum að ráðuneyti hafi frumkvæði að því að endurskoða þau ákvæði sem í gildi eru og samræma þau og búa út eitthvert fyrirkomulag sem getur þá átt við í hverju tilviki svo ekki þurfi að meðhöndla sérstaklega á Alþingi hvert sinn.

Það sem mér finnst umhugsunarefni, sérstaklega í þessu tilviki þegar í hlut eiga verðmæti sem spretta af vatnsréttindum, hlunnindum þessara jarða, er að þeim sé ráðstafað í eitt skipti fyrir öll með eins skiptis útgreiðslu af einhverju tagi sem í raun gengur gegn anda hinnar upphaflegu hugsunar um kristfjárjarðirnar sem er að þær skuli vera ævarandi eign þeirra himnafeðga og það sem þær gefa af sér skuli á hverjum tíma og jafnt og þétt renna til þeirra verkefna sem þær voru helgaðar á sínum tíma.

Auðvitað er það ekki í sjálfu sér bundið við lagaákvæði um kristfjárjarðir eða þær reglur sem um þær gilda að það fyrirkomulag er haft á að þegar vatnsréttindi jarða eru bætt þá er það gert með eins skiptis bótum sem taka mið af einhverjum afskriftartíma virkjunar og reyndar er nú deilt um hversu háar þær eigi að vera nú í landinu eins og menn þekkja. Það er meingallað fyrirkomulag og það sannast eiginlega í þessu. Það sýnir sig hversu vitlaust það er að varanleg verðmæti sem tilheyra eignarjörðum séu ekki greidd ef menn hafa afnot af þeim með jöfnum greiðslum, einhvers konar leigugreiðslum eða föstum greiðslum á ári hverju heldur bættar í eitt skipti sem er auðvitað ígildi þess að hlunnindin séu tekin undan jörðunum um aldur og ævi vegna þess að þegar handhafinn hefur í eitt skipti bætt réttindin með eingreiðslu þá eru þau horfin frá jörðunum.

Þetta er brot á þeirri grunnreglu, t.d. jarðalaga sem mjög lengi hefur verið, að ekki skuli aðskilja hlunnindi og jarðir nema í sérstökum undantekningartilvikum. Það hefur fyrst og fremst verið þegar ríkið sjálft hefur átt jarðir og selt þær frá sér og það hefur þá haldið eftir tilteknum réttindum við söluna, námuréttindum og öðru slíku. Fyrir því geta menn fært ákveðin rök að þegar slíkt hefur komist í almannaeigu þá haldist það þar en ekki á hina hliðina.

Mér finnst í reynd að með þessari aðferðafræði sé brotið gegn anda þessarar hugsunar, mönnum kann að finnast þetta hreint smámál og ekki stórt en þannig var nú málið hugsað á sinni tíð að með því að gefa þeim himnafeðgum jarðirnar og ganga frá því þannig að afrakstur af þeim, tekjur af þeim skyldu á hverjum tíma renna til þessara þörfu málefna, til fátækra og til bágstaddra á viðkomandi svæði, þá er það að sjálfsögðu hugsað þannig að það muni gilda um aldur og ævi. Því fátæka höfum vér ætíð á meðal vor, sagði maðurinn.

Hér er hins vegar í raun og veru verið að búa til tiltekna hjáleið sem þýðir að þessi verðmæti ganga endanlega undan jörðunum, eru bætt í eitt skipti miðað við skamman afskriftatíma eins og það er í rauninni hugsað þó að í hlut eigi kannski fjárfesting í virkjun sem getur gefið af sér hundruð ára. En það eru aðeins fyrstu fjörutíu árin eða um það bil sem þeir í raun og veru fá til sín leigutekjurnar eigendurnir, þeir guð almáttugur og Jesús Kristur sonur hans, og þær renna til þeirra verkefna sem þær eiga að gera. (Iðnrh.: En hvað fær heilagur andi?) Hér er því miður ekki að mínu mati alveg nógu vel að málum staðið.

Það veldur mér þeim hugleiðingum að ég eiginlega sætti mig ekki alveg við það að Alþingi afgreiði málin svona aumingjalega aftur og aftur eins og gert hefur verið með þessar kristfjárjarðir sem af og til dúkka hér upp og ætíð er um að ræða einhverja sértæka smíð sem tengist hverju tilviki fyrir sig en ekki eru til staðar almennar reglur sem um þetta gilda. Auðvitað má segja sem svo að það standi upp á mig og að það sé aumingjaskapur og leti að hafa ekki bara farið í það sjálfur að reyna að skoða þetta almennilega og finna þessu einhvern varanlegan búning. En maður mæðist nú mörgu eins og kunnugt er og kannski væri ekki til of mikils ætlast að þau ráðuneyti sem fara með framkvæmd þessara mála tækju þetta til skoðunar hjá sér, að koma þessu í einhvern varanlegan fastan og framtíðarbúning þannig að við þurfum ekki að vera með þetta svona í höndunum af og til eins og raun ber vitni.