135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

ráðstöfun andvirðis vatnsréttinda kristfjárjarðanna Merkis og Arnarhóls.

516. mál
[18:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn á þetta mál, um ráðstöfun andvirðis vatnsréttinda kristfjárjarða, sem er til 3. umr. Ég vil rifja það upp að þegar hin nýju jarðalög, þ.e. þau jarðalög sem nú eru í gildi, voru í vinnslu og síðan samþykkt á Alþingi 2004, átti að gera heildstæðan lagabálk um meðferð jarða, bæði jarða í einkaeign og jarða í opinberri eigu. Í þeirri umfjöllun voru ekki teknar með kristfjárjarðir né heldur jarðir sem tilheyrðu beint í eigu kirkjunnar. Ég gagnrýndi þetta þá og taldi eðlilegt að úr því að verið væri að setja heildstæð jarðalög mundu þau lög líka taka til meðferðar kristfjárjarða þar sem væri farið ofan í þann rétt sem þær jarðir hafa og ráðstöfun þeirra yrði þá sett líka inn í jarðalögin. Við því var ekki orðið, því miður. Jarðalögin sem samþykkt voru 2004 voru afgreidd þannig að allmargar jarðir sem höfðu sérstöðu hvað eignarhald varðar voru ekki teknar þar með.

Ég vil taka undir sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um meðferð og ráðstöfun á kristfjárjörðum, því að eins og segir í athugasemdum við lagafrumvarpið eru kristfjárjarðir sjálfseignarstofnanir eða ígildi þeirra sem gefnar voru í því skyni að fátæklingar mættu njóta afgjalds þeirra. Það að fara að taka sér heimildir til þess að skipta upp þessum eignum, svipta þær varanlega ákveðnum réttindum og gæðum eins og hér er gert, þó svo að andvirði þeirra renni síðan til félagslegra verkefna á heimasvæði þeirra, allt gott og blessað með það, mjög gott með það, þá er þetta engu að síður um eins skiptis aðgerð að ræða sem markmiðið með kristfjárjörðunum var ekki. Markmiðið með þeim var að þetta gæfi grunn til ókominna kynslóða á þeim forsendum sem þar er tilgreint. Alveg fram til þessa tíma var það virt af íslenskum stjórnvöldum og dönskum stjórnvöldum þegar við heyrðum undir þau, að réttarstaða þessara jarða var virt þannig að meira að segja danski kóngurinn, sem var þá um tíma yfirmaður kirkjunnar líka, taldi sig ekki hafa rétt til þess að svipta kristfjárjarðir þeirri eignarlegu forsjá sem þær voru komnar undir. Þetta hefur þá breyst núna á allra síðustu árum þar sem Alþingi telur að það geti ráðstafað þeim, eins og þessi gjörningur hefði nánast ekki verið til.

Ég vil, herra forseti, vekja athygli á að ég lagði til við vinnslu og afgreiðslu jarðalaga á sínum tíma og skilaði um það sérstakri greinargerð í nefndaráliti mínu einmitt um meðferð kristfjárjarða, að það hefði átt að skapa lögformlegan ramma samhliða meðferð og ráðstöfun á öðrum jarðeignum og jarðréttindum og fá þannig stöðu til frambúðar sem menn hefðu getað virt og unnið eftir. Ég verð því að segja að ég hef í sjálfu sér ekki athugasemdir við það að fjármagnið sem fyrir þetta fæst skuli renna til viðkomandi samfélags á þann hátt sem er lagt til. Hins vegar get ég ekki stutt það að jarðir séu með þessum hætti sviptar náttúrulegum auðlindum sínum um ókomin ár. Reyndar er sama hvort um er að ræða jarðir í almennri eigu ríkisins eða í einkaeigu, mér finnst að það eigi ekki heldur að vera hægt að svipta jarðir þannig réttindum sínum og auðlindum og allra síst með jarðir eins og þessar, kristfjárjarðir, sem okkur er fyrst og fremst falið að varðveita samkvæmt þeim tilgangi sem þær voru gefnar til ókominna kynslóða. Það að gera svona eins skiptis aðgerð við að ráðstafa þessum verðmætum, get ég ekki stutt, herra forseti.

Ég vildi láta þetta koma fram og ítreka að ég tel að jarðalögin sem á sínum tíma voru samþykkt 2004 voru afar hroðvirknislega unnin. Þá var opnað fyrir almenna sölu á jörðum. Ábúðarlögin sem höfðu gilt nærri öld voru afnumin svo að réttur ábúenda á jörðum var mjög skertur og sömuleiðis var réttur landbúnaðarins til jarðnæðis líka mjög skertur samkvæmt þeim lögum. Við höfum því mátt horfa á afleiðingar þess að æ fleiri jarðir, meira að segja jarðir sem voru í ríkiseigu, eru að fara undan landbúnaði og í einkaeign, í eigu fólks sem alls ekki býr á svæðinu eða tekur þar þátt í samfélaginu eins og ráð var fyrir gert. Við horfum upp á það í auknum mæli að land er tekið úr landbúnaðarnotum án þess að fyrir því séu nein gild rök. Frumvarp þetta er einn meiður af ágöllum eða vanköntum þeirrar löggjafar, herra forseti, og sýnir á vissan hátt virðingarleysi Alþingis gagnvart þeim rétti sem kristfjárjarðirnar hafa notið í gegnum aldirnar.