135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

störf þingsins.

[10:38]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Fyrir Alþingi liggur frumvarp um matvælalöggjöf sem mun, ef hún fer í gegn óbreytt, heimila m.a. innflutning á hráu kjöti til Íslands frá löndum Evrópusambandsins. Fyrir landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd hafa komið fjölmörg álit vegna þessa máls og m.a. mjög vönduð greinargerð prófessors Margrétar Guðnadóttur, sem er einn virtasti fræðimaður okkar á sviði veirusýkinga, þar sem hún varar mjög eindregið við þessum innflutningi vegna þeirrar hættu sem hann getur skapað fyrir heilbrigði manna í landinu. Í rauninni eru fjölmargir váboðar í þessu, það eru ekki bara tríkínur sem geta borist úr svínum í menn og er sjúkdómur sem við erum laus við heldur fjöldi annarra sjúkdóma sem hafa verið alveg óþekktir hér á landi. Í raun og veru býður þessi innflutningur upp á þá hættu, sérstaklega ef svo fer að hrátt kjöt berst af heimilum eða úr iðnaði inn í lífríkið, sem getur hæglega gerst í gegnum fóðrun t.d. hænsnfugla á heimilum og fóðrun gæludýra, að við fáum inn í landið dýra- og mannasjúkdóma sem hafa áður verið óþekktir. Þess vegna beini ég þeirri spurningu til hv. þm. Ástu Möller, sessunautar míns: Hefur hún sem formaður heilbrigðisnefndar leitt hugann að þessum þætti málsins, hver er afstaða hennar sem formanns heilbrigðisnefndar? Vegna þess að ég held að þetta mál lúti að þeim hagsmunum sem heilbrigðisnefnd Alþingis er ætlað að verja með þjóðinni, það heilbrigði sem okkur hefur tekist að verja með heilbrigðum landbúnaði. Það skiptir mjög miklu máli að við höfum verið laus við salmonellu og kampýlóbakter um margra ára skeið en sjúkdómar af þeirra völdum geta verið fólki lífshættulegir.