135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

störf þingsins.

[10:51]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs hér til þess að koma inn í þá umræðu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hóf hér áðan varðandi embætti ríkislögreglustjóra. Ég tek undir orð formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur, um að það er ekki á dagskrá að leggja þetta embætti niður þó að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafi lýst persónulegri skoðun sinni hér í þinginu í síðustu viku.

Mér finnst mikilvægt þegar menn ræða þetta embætti að átta sig á því hvaða hlutverki þetta embætti gegnir. Það gegnir annars vegar stefnumótunar- og samhæfingarhlutverki fyrir löggæslumál í landinu sem verða auðvitað að vera á einhverjum einum stað. Það er skýrt samkvæmt lögum um embættið að þetta er eitt meginhlutverk þessa embættis. Þar að auki rekur ríkislögreglustjóraembættið einstakar deildir sem eiga að þjóna löggæslunni yfir allt landið og þykir eðlilegt að hafa á einum stað en ekki dreift á einstök lögregluembætti.

Þegar rætt hefur verið um vöxt þessa embættis þá er mikilvægt að menn velti því fyrir sér hvað það er sem hefur vaxið. Ég velti fyrir mér hvort menn séu ósáttir við það að efnahagsbrotadeildin hafi vaxið nokkuð. Finnst mönnum hún ekki hafa næg verkefni? (Gripið fram í.) Ég velti fyrir mér hvort mönnum finnist það sé minni ástæða til þess að sinna alþjóðadeildarmálum. Alþjóðleg samskipti hafa kallað á meiri vöxt að þessu leyti. (Gripið fram í.) Eru menn ósáttir við greiningardeildina sem er skipuð fjórum mönnum og hefur greiningarhlutverki að gegna fyrir lögregluna alls staðar á landinu sem er starfsemi sem alltaf þarf að eiga sér stað í lögreglustarfi? Eru menn ósáttir við almannavarnadeildina? Er það það sem mönnum finnst hafa farið (Forseti hringir.) úr böndunum? Eru menn ósáttir við sérsveitina? Menn vita að það hefur fjölgað í sérsveitinni en það liggur líka fyrir að sérsveitarmenn sinna almennum löggæsluverkefnum (Forseti hringir.) þegar þeir eru ekki í sérsveitarverkefnum. Þetta verða menn að hafa í huga þegar (Forseti hringir.) þessi umræða er tekin.