135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

störf þingsins.

[10:58]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til að taka undir áhyggjur hv. þm. Bjarna Harðarsonar vegna þeirra áhrifa á lýðheilsu og heilbrigði þjóðarinnar sem samþykkt matvælafrumvarpsins sem liggur fyrir þinginu kann að hafa. Hv. þm. Ásta Möller benti á það réttilega að nú færi fram mikil vinna í Evrópu í baráttunni gegn kampýlóbakter og salmonellu. Það er eðlilegt vegna þess að í allri Evrópu er landlægt smit, sérstaklega í kjúklingakjöti, og nú er svo komið að í Danmörku elda menn helst ekki ferska kjúklinga öðruvísi en með einnota hönskum. Er þetta það ástand sem við viljum innleiða hér á landi? Ég segi bara nei takk.

Evrópubúar hafa nefnilega ástæðu til þess að horfa öfundaraugum til okkar hér á landi. Meðal kosta þess að búa á Íslandi eru einmitt heilnæm matvæli sem eru laus við sýkingar, sem eru laus við hormóna og sem eru laus við sýklalyf. Þetta eru gæðin sem við viljum halda í og við viljum ekki fórna þeim á altari Evrópusambandsins.

Við höfum ekki aðeins náð miklum árangri í baráttunni gegn salmonellu og kampýlóbakter. Árangur okkar í baráttu gegn búfjársjúkdómum eins og visnu og mæði er heimsfrægur. Þessir sjúkdómar eru landlægir í sauðfé og geitfé um alla sunnanverða Evrópu. Hv. þingmenn. Innflutningur á hráu kjöti og ógerilsneyddri mjólk frá þessum svæðum mun setja áratuga baráttu í hættu en mikill kostnaður hefur verið lagður í hana. Ég segi: Ef eitthvert álitamál er uppi í þessum efnum (Forseti hringir.) skulu menn hlusta á Margréti Guðnadóttur prófessor sem er nestor í þessum fræðum og nýtur heimsviðurkenningar.