135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

störf þingsins.

[11:06]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vegna ræðu hv. síðasta ræðumanns held ég að óhætt sé að fullyrða að hver einasti þingmaður á hinu háa Alþingi vill veg atvinnulífsins sem mestan. Það er enginn sem vinnur markvisst að því að draga úr gildi og vægi atvinnuveganna þannig að umræða af þessum toga dæmir sig sjálf og er í sjálfu sér ekki mikið meira um hana að segja.

Hins vegar kvað ég mér hljóðs, virðulegi forseti, vegna umræðu um löggæslumál. Það er ekkert nýtt að sá er hér stendur hafi þau sjónarmið uppi að sú þróun sem orðið hefur á embætti ríkislögreglustjóra sé ekki í takt við það sem ég vildi sjá. Sú umræða hefur farið fram í mörg ár og ég hef ekki breytt þeirri skoðun minni. En umræða um löggæslumál þarf að vera á breiðum grundvelli. Hún má ekki snúast um eitt embætti til eða frá. Það sem ég hef sagt í þessum efnum er að við viljum sjá miklu meiri löggæslu í nærsamfélaginu, við viljum sjá fjármunina nýtta í nærsamfélaginu og fyrir almenning. Það er það sem ég hef talað fyrir.

Áðan var talað um öflugt eftirlit með útlendingum og alþjóðlegri glæpastarfsemi. Það eftirlit fer fyrst og fremst fram hjá embættinu á Suðurnesjum. Það er öflugasta landamæravarsla í Evrópu en því miður hafa verið að koma fram hugmyndir sem setja það í uppnám. Hér er á ferðinni mjög mikilvæg umræða um stefnu í löggæslumálum og hún á að fara fram. Hún er ekki léttvæg fundin eins og nefnt var í umræðunni áðan. Við höfum haft mjög skýra stefnu í þessum málum. Hún var kynnt fyrir löngu síðan. En það má heldur ekki gleyma í þessari umræðu að þó að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking standi saman í ríkisstjórn þá er ekki um að ræða samruna þessara flokka. Þeir hafa ekki breytt um stefnu eða viðhorf. Þetta er spurning hvernig eigi að nýta fjármuni og staðreyndin er sú að það getur aldrei verið gott að nýta fjármuni á þann veg að tvær höfuðstöðvar séu byggðar upp á svæði með 500 metra radíus.