135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

lengd þingfundar.

[11:29]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil fara fram á að virðulegur forseti, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, reyni að kveða upp úr um það hvað skuli gera hér. Það er að mínu mati óeðlilegt að við förum fram yfir miðnætti með þennan fund. Hér á að ræða mikilvæg mál, menntamál, og Framsóknarflokkurinn hefur beðið um tvöfaldan ræðutíma í umræðu um framhaldsskólafrumvarpið af því að það er umdeilt mál. Mér finnst ekki hægt að bjóða upp á það þegar við teljum að mikilvægt mál sé á ferðinni og biðjum þess vegna um þá undanþágu sem er í þingskapalögunum að fá tvöfaldan ræðutíma, að sú umræða eigi að fara fram um miðja nótt þar sem enginn getur fylgst með henni nema e.t.v. örfáir þingmenn sem eru hér inni. Auðvitað fara þær ræður inn í þingtíðindin, það er gott og vel, en það er bara ekki hægt að bjóða upp á það á Íslandi árið 2008 að við höldum næturfundi um mikilvæg mál. Ég tel það mjög óeðlilegt. Ég ætla því að fara fram á það að virðulegur (Forseti hringir.) forseti kveði upp úr um þetta eða haldi fund með þingflokksformönnum t.d. í hádegishléi sem hlýtur að koma bráðlega.