135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[11:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hér er lögð fram af minni hálfu tilraun til sátta í þessu máli og tilraun til að bæta þetta frumvarp sem er gallað vegna þess að það er ekki skýrt hver skuli bera ábyrgð á því að sú starfsemi sem Neyðarlínan annast sé veitt. Þessi breytingartillaga er algjörlega í samræmi við óskir Neyðarlínunnar sjálfrar og ábendingar lögregluyfirvalda um að ábyrgð ríkisins á því að þessi rekstur sé til staðar sé tryggð og að hún sé skýr.

Það er undarleg þrákelkni ef meiri hlutinn undir forustu formanns allsherjarnefndar hefur það sem sérstakt markmið að afgreiða þetta mál í ágreiningi. Það ætti að geta verið góð sátt um að ganga frá því eins og þessi breytingartillaga hljóðar. Með því er ekki hróflað við fyrirkomulagi rekstrarins í dag, að hann geti verið í hlutafélagi þeirra opinberu aðila sem að honum standa nú, ríkisins, Reykjavíkurborgar, Landsvirkjunar og Orkuveitunnar. En um leið er ábyrgð ríkisins á því að þessi starfsemi sé til staðar skýrð í samræmi við ábendingar lögregluyfirvalda þar um. Ef ekki er einu sinni hægt að samþykkja þessa sáttatillögu af okkar hálfu þá hljótum við að þurfa að líta svo á að það sé markmið meiri hlutans að hafa um þetta mál ágreining. (Forseti hringir.)